Yfir 800 mál tengd heimilisofbeldi

Langflestar tilkynningar eru á höfuðborgarsvæðinu en tilkynnt var um 701 …
Langflestar tilkynningar eru á höfuðborgarsvæðinu en tilkynnt var um 701 heimilisofbeldimál á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. mbl.is/G.Rúnar

Undanfarin fjögur ár hefur verið tilkynnt um meira en 800 mál sem tengjast heimilisofbeldi á landinu ár hvert. Í 66–68% tilvika er um ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka að ræða. Langflestar tilkynningar eru á höfuðborgarsvæðinu en tilkynnt var um 701 heimilisofbeldismál á höfuðborgarsvæðinu í fyrra en málin voru 868 á landinu öllu.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen við fyrirspurn Ásgerðar K. Gylfadóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, þar sem spurt var um heimilisofbeldismál.

Sigríður segir að í lögum sé að finna ýmsar heimildir fyrir upplýsingaskipti á milli lögreglu og annarra stjórnvalda til að tryggja að viðkomandi stjórnvöld hafi allar nauðsynlegar upplýsingar, þar á meðal persónuupplýsingar, til að geta sinnt lögbundnum hlutverkum sínum. Samkvæmt lögum beri lögreglu að hafa víðtækt samstarf við önnur stjórnvöld.

Í barnaverndarlögum er einnig að finna ákvæði sem er ætlað að tryggja að barnaverndaryfirvöldum sé tilkynnt um tilvik þegar barn verður fyrir ofbeldi eða verður vitni að ofbeldi á heimili sínu. Þar segir að verði lögregla vör við að barn búi við óviðundandi aðstæður eða verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, skuli hún tilkynna barnaverndarnefnd um það.

Ásgerður spyr ráðherra einnig hver reynslan sé af nýjum verklagsreglum sem tóku gildi í desember 2014 fyrir öll lögregluembætti í tengslum við heimilisofbeldi. Lögin fólust í breyttri forgangsröðun hjá lögreglu og félagsþjónustu sveitarfélaga með það að markmiði að bæta þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Sigríður segir að reynslan af hinu breytta verklagi hafi verið góð og að mikill árangur hafi náðst í að bæta rannsóknir og meðferð heimilisofbeldismála almennt. Vísar hún í svari sínu til upplýsinga frá þeim lögregluembættum sem hafa haft hvað flest heimilisofbeldismál til meðferðar; lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert