„Heppnasti maður í heimi“

Frá björgunarstörfum í Table-fjalli á mánudagskvöld.
Frá björgunarstörfum í Table-fjalli á mánudagskvöld. Ljósmynd/WSAR Western Cape

Íslenski ferðamaðurinn sem lifði af 20 metra hátt fall á Table-fjalli við Höfðaborg í Suður-Afríku á mánudag er „heppnasti maður í heimi“, að sögn Roy van Schoor, björgunarsveitarmanns sem kom að aðgerðunum. Hann ræddi björgunina í viðtali á útvarpsstöðinni Cape Talk í gær.

„Sú röð atburða sem varð til þess að hann er á lífi í dag er algjörlega mögnuð,“ sagði van Schoor og bætti við að hending ein hafi valdið því að neyðaróp hans heyrðist til Camps Bay, sem er í úthverfi borgarinnar næst fjallinu.

Þá er með ólíkindum að hann hafi lifað af fallið, en eins og fram hefur komið lenti íslenski maðurinn, sem er 32 ára gamall, á klettasyllu sem var á stærð við tvíbreitt rúm. Hefði hann ekki lent þar, hefði hann fallið 80 metra til viðbótar.

Fram kom í máli van Schoor að Íslendingurinn hefði verið einn á ferð og að það geti verið mjög hættulegt, enda sé Table-fjall mun hættulegra en ferðamenn geri sér grein fyrir. Fjallið er helsta kennileiti Höfðaborgar og er afar aðgengilegt, eiginlega hættulega aðgengilegt, að sögn van Schoor.

„Fólk ákveður að fara á eigin vegum og það er hættulegt að fara niður af fjallinu,“ segir björgunarsveitarmaðurinn, en björgunarsveitir í Höfðaborg eru kallaðir út nær daglega til þess að aðstoða göngufólk sem hefur lent í vanda á fjallinu.

Hlusta má á að viðtalið hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert