Gefur lítið fyrir útreikningana

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, gefur lítið fyrir fullyrðingar um kröfugerð …
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, gefur lítið fyrir fullyrðingar um kröfugerð félagsins.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, vísar því á bug að kröfur félagsins myndu leiða til 70% - 85% launahækkana. Í samtali við mbl.is segir hann að grundvallarkrafan sé að hækka lágmarkslaun í 425 þúsund krónur á þremur árum og að útfærsla þess sé ekki mótuð, enda sé það eitthvað sem ætti að ræða í samningaviðræðum.

Fullyrt er í Fréttablaðinu í dag að ef gengið yrði að kröfum Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar myndi það leiða til þess að launahækkanir félagsmanna gætu orðið á bilinu 70% til 85%.

Sagt var að kröfugerð Eflingar miðaði við að regluleg heildarmánaðarlaun hópbifreiðarstjóra hækkuðu úr að meðaltali 493 þúsund krónum í 913 þúsund krónur árið 2021

Útreikningar á eigin ábyrgð

„Það getur hver sem er lesið kröfugerðina hjá okkur og hún fjallar bara um það að hækka lágmarkslaun í 425 þúsund og svo er talað um það að hækkanir eigi að vera í formi krónutöluhækkana. Meira er ekki sagt um útfærslu á þessu,“ segir Viðar.

„Það að vera svo að heimfæra það eða láta það speglast í tölum í töflu sem er fyrir ofan lágmarkslaunin, það er bara eitthvað sem menn eru bara þá að leika sér að á eigin ábyrgð,“ bætir hann við og tekur fram að Efling hafi ekki lagt fram kröfur um hvernig þessari hækkun yrði háttað.

Það er samningsatriði hvernig launakröfur verða útfærðar í launatöflum og hefur félagið meðal annars sóst eftir því að endurskoða launatöflurnar, útskýrir framkvæmdastjórinn.

Dragi úr vaktavinnu og yfirvinnu

Spurður hvort útreikningarnir sem hafa verið birtir séu ekki líklegir til þess að byggja á því að yfirvinnuálag og vaktaálag muni hækka talsvert vegna hækkunar dagvinnukaups, segir Viðar hugmyndafræðina á bak við kröfugerð félagsins að hægt verði að lifa af dagvinnulaunum.

„Við vitum að fólk er að vinna yfirvinnu og í vinnu með vaktaálagi vegna þess að það er ekki hægt að lifa af dagvinnulaunum,“ segir hann og bendir á að hvati fyrir alla aðila til þess að draga úr yfirvinnu og vaktaálagi gæti myndast við hækkun dagvinnulauna.

Fara offari í árásum á kröfugerð

Í tilkynningu sem Efling hefur sent fjölmiðlum vegna umfjöllunar Fréttablaðsins segir að „Samtök atvinnulífsins og leiðarahöfundar Fréttablaðsins hafa farið offari í árásum á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um hríð. Talað er um 60% til 85% hækkun launa hjá fyrirtækjum í landinu og kennt við sturlun og önnur álíka einkenni. Allt er þetta fjarri lagi.“

Vísar Efling á útreikninga sína á heimasíðu sinni þar sem félagið segist sýna að krafist er um 19,4% hækkun reglulegra launa á þremur árum að meðaltali.

Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir mbl.is/​Hari

„Öfgaskoðanir þær sem Hörður Ægisson aðhyllist þegar kemur að efnahagsmálum eru ekki lengur bundnar við leiðara eða skrif í Markaðinn. Nú er forsíða Fréttablaðsins undirlögð af þessari yfirgengilegu vitleysu. Það er ekki annað hægt en að hrista hausinn,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, í tilkynningunni.

 „Einhver örvænting hefur gripið um sig í hópi þeirra sem aðhyllast ofræði íslensku auðstéttarinnar. Þessi örvænting hefur drifið málflutning þeirra langt útfyrir öll siðferðismörk. Lágmarkskröfur um leiðréttingu launa eru kallaðar sturlun á meðan við eigum að trúa því að launahækkanir bankastjóra séu náttúrulögmál. Það er greinilegt að það fjarar stöðugt undan trúverðugleika þeirra, og þau finna það,“ segir formaðurinn.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert