Stefán bar færsluna undir borgarstjóra

Að sögn Dags hefur starfsfólk borgarinnar bæði sýnt langlundargeð og …
Að sögn Dags hefur starfsfólk borgarinnar bæði sýnt langlundargeð og þolinmæði gagnvart framkomu einstakra borgarfulltrúa. mbl.is/Hari

Stefán Eiríksson borgarritari bar færslu sína um hegðun ákveðinna borgarfulltrúa undir Dag B. Eggertsson borgarstjóra áður en hann setti hana inn á Facebook-síðu starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV, þar sem rætt var við borgarstjóra um starfsandann í ráðhúsi Reykjavíkur, sem borgarstjóri segir tímabært að gera bragarbót á.

RÚV greindi frá því á föstudag að tveir starfsmenn hefðu hrakist úr starfi vegna framkomu kjörinna fulltrúa og á föstudag sendu starfsmenn einnig frá sér yfirlýsingu, þar sem þeir óskuðu eftir vinnufriði frá kjörnum fulltrúum.

„Umfangið og fjöldi ábendinganna er einfaldlega það mikill núna að það er alls ekki hægt að líta fram hjá því,“ sagði Dagur í samtali við RÚV. Að hans sögn hefur starfsfólk borgarinnar sýnt bæði „langlundargeð og þolinmæði“ gagnvart framkomu einstakra borgarfulltrúa.

Borgarstjóri tiltók ekki, frekar en Stefán, um hvaða kjörnu fulltrúa væri að ræða, en sagði að allir sem þekki til umhverfisins í tengslum við borgarstjórn á undanförnum mánuðum viti að „það er vandamál á ferðinni“.

„Við þurfum bara að viðurkenna það og taka á því eins og manneskjur,“ sagði Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert