„Undarleg sena“ með hótelstjóra

Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir utan bílinn fyrr í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir utan bílinn fyrr í dag. mbl.is/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að atkvæðagreiðsla vegna verk­falls hót­el­starfs­fólks sem sinn­ir þrif­um og hrein­gern­ingum hafi að mestu leyti gengið vel. Þó hafi starfsfólk á kosningabíl lent í „undarlegri senu“ með hótelstjóra á Hilton Reykjavík Nordica.

Sólveig segir að alls hafi kosningabíllinn farið á sjö hótel í dag. Núna er hlé á ferðum bílsins en áfram verður haldið í kvöld, þar sem farið verður á hótel og veitingastaði. Bíllinn þurfti að fara tvívegis á Hilton Reykjavík Nordica.

Komu aftur þegar starfsfólk var að ljúka vakt

„Við komum klukkan tvö og þá var af einhverjum ástæðum ekki hægt að leyfa fólkinu að kjósa. Við komum aftur kortér yfir fjögur þegar þau voru að klára vaktina sína,“ segir Sólveig.

Kosningabílinn var á ferðinni í dag og heldur ferð sinni …
Kosningabílinn var á ferðinni í dag og heldur ferð sinni áfram í kvöld. mbl.is/Hari

Hún segir ekki hægt að líkja stemningunni á Hilton við það sem gerðist á City Park-hótelinu fyrr í dag. „Ég myndi ekki segja að það hafi verið svipaðar uppákomur en í seinni ferðinni á Hilton Nordica lentum við í undarlegri senu með Ingólfi hótelstjóra,“ segir Sólveig og heldur áfram:

„Þetta var frekar óskemmtilegt“

„Hann vomaði í kringum bílinn og tók svo myndir, sem ég sá ekki, undir því yfirskini að hann hefði áhyggjur af því að þetta væri ekki nógu leynilegar kosningar. Hann var sem sagt að taka þarna myndir, held ég, yfir fólkið sem var að kjósa. Við skulum sjá hvort hann birti þessar myndir. Við reyndum að ræða málin við hann og þetta var frekar óskemmtilegt.

Starfsfólk Eflingar hafi reynt að stoppa hótelstjórann. Sólveigu þótti mjög óviðeigandi af honum að hanga yfir fólkinu og henni fannst það fara yfir öll mörk þegar hann dró upp símann og tók myndir. 

Þá sagðist hann hafa áhyggjur af því að þetta væri ekki nógu leynilegt og vildi skjalfesta það með því að taka myndir af Eflingar-fólkinu kjósa,“ segir Sólveig. Hún bætir við að aðrir yfirmenn hafi ekki skipt sér af og hefur ekki nákvæmar tölur um hversu margir hafa kosið en kosning fer einnig fram með rafrænum hætti.

Fólkið tekur okkur mjög vel og er mjög tilbúið að koma og kjósa.

Hilton Reykjavik Nordica.
Hilton Reykjavik Nordica. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Segist ekki hafa tekið neinar myndir

Ingólfur Haraldsson, hótelstjóri Hilton Reykjavík Nordica, hefur ekki sömu sögu að segja og Sólveig. Hann segist ekki hafa tekið neinar myndir og að bíllinn hafi komið fyrr í dag, án þess að gera boð á undan sér. 

Við sögðum þeim að koma aftur klukkan hálffimm þegar fólk væri að klára vinnu og hefði tíma til að sinna þessu,“ segir Ingólfur.

„Ég sagði Sólveigu að ég hefði ekkert á móti kosningunni og mér finnst frábært að fólk kjósi. Mér finnst undarlegt að það séu sex til sjö Eflingarstarfsmenn í kringum kosninguna og svo er ekki einn og einn látinn koma í einu heldur standa tveir til þrír starfsmenn í hnapp og skrifa á seðilinn. Ég kalla það nú ekki leynilegt. Ég var að spyrja út í það og þá hvæsti hún á mig að það kæmi mér ekki við,“ segir Ingólfur og ítrekar að hann hafi ekki myndað eitt né neitt:

„Ef ég þarf einhverjar myndir fer ég í öryggismyndavélarnar og skoða þar en ég þarf það ekki. Hún er að reyna að búa til einhvern æsing að allir séu að gera á hlut þessa fína fólks sem maður er með í vinnu.“

Ingólfi þótti rétt að sjá hvernig kosningin færi fram og spyrja út í hana. „Kannski er þetta bara löglegt og þá er það allt í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert