Allt að því ofsaveður á nokkrum stöðum

Vindakort Veðurstofunnar leit svona út klukkan sjö í morgun. Líkt …
Vindakort Veðurstofunnar leit svona út klukkan sjö í morgun. Líkt og sjá má er vindstyrkur víða mikill. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þetta er að þróast alveg eins og spáin var að gera ráð fyrir,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Allt að því ofsaveður sé á nokkrum stöðum. „Það er orðið mjög hvasst með allri suðausturströndinni og á sunnanverðum Austfjörðum og svo er farið að hvessa sums staðar fyrir norðan. Veðrið er þó ekki komið alls staðar né er það búið að ná fullum styrk.“

Hann segir meðalvind í Papey í nótt hafa náð 31,6 m/s og að meðalvindhraði nú sé víða í kringum 20-25 m/s. „Þannig að það er nægur vindur,“ bætir hann við.

Hvasst er orðið uppi á Hellisheiði, frá Þjórsá og austur úr og svo er farið að hvessa austan til í Eyjafirðinum. Einnig er farið að hvessa í Skagafirði, en ekki er þó útlit fyrir að veður verði mjög slæmt þar.

Hviðurnar þrisvar sinnum sterkari

Óli Þór segir flesta staði sem veðrið hefur áhrif á verða farna að finna fyrir því núna á milli klukkan sjö og níu í morgun. Strengur sem nú er austur frá Þjórsá mun færa sig lengra vestur eftir og það á eftir að hvessa eitthvað á höfuðborgarsvæðinu. „Mér sýnist það þó ekki ná því að verða neitt í líkingu við það sem verður fyrir austan fjall og það er í líkingu við það sem spáin var í gær,“ segir hann.

Líkt og áður sagði er meðalvindhraði víða orðinn 20-25 m/s og getur sums staðar átt eftir að bæta nokkuð í. Á Möðrudalsöræfum er meðalvindhraði víða komin yfir 20 m/s og sums staðar í 25 m/s og á Mývatnsöræfum er meðalvindhraði 26 m/s og 36 m/s í hviðum. Við Hvalnes klukkan sex í morgun var meðalvindhraði 30 m/s. „Í Hvaldalsá í nágrenni Hvalnesskriða, þar hefur meðalvindurinn ekki verið mikill en hviðurnar hafa farið upp í 40 m/s,“ segir Óli Þór og bendir á að eiginlega sé verra að vera með 12 m/s meðalvind og hviður sem séu þrisvar sinnum sterkari líkt og þar er.

Vegagerðin er búin að loka veginum um Hvalnesskriður vegna grjóthruns og grjótfoks, en ekki hefur komið til annarra lokanna það sem af er morgni. Óveðursmerki hafa þó verið sett við vegi meðfram nær allri suðausturströndinni og Vegagerðin bendir á Twitter-síðu sinni á að ekkert ferðaveður sé á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi.

Óli Þór segir það ekki koma sér á óvart að kæmi til einhverra lokana og bendir á að á Mýrdalssandi fari til að mynda sandur og möl auðveldlega af stað á þessum vindhraða.

Á Suðurlandi má gera ráð fyrir að veður fari að lægja eitthvað strax um og eftir hádegi og á Norðurlandi mun veður líklega gefa eitthvað aðeins eftir um og eftir fjögur í dag. Fyrir austan Lómagnúp og Klaustur og austan Eyjafjarðar verður hins vegar líklega ekki breyting fyrr en um og eftir kvöldmat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert