Strandaglópar í bíl vegna veðurofsans

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Stormurinn sem spáð hafði verið í nótt er nú farinn að gera vart við sig á suðaustanverðu landinu og segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is að fyrstu óveðursútköllin hefðu borist upp úr klukkan fjögur í nótt og var það björgunarsveitin á Höfn í Hornafirði sem þá var fengin til að sinna fokverkefnum í kringum Höfn.

Það var svo einnig á fimmta tímanum sem Neyðarlínunni barst tilkynning um ferðafólk í vanda á leiðinni milli Hornafjarðar og Djúpavogs. Fólkið, sem var þar á ferð í bíl, komst hvorki aftur á bak né áfram vegna veðurofsans. Þá hafði rúða brotnað í bílnum sem gerði vistina þar enn óbærilegri.

Björgunarsveitarmenn fóru á staðinn og sóttu ferðafólkið og var því komið á Höfn rétt fyrir klukkan fimm í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert