Reyna að komast hjá því að fara á hausinn

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta á ekki að koma neinum á óvart, við tilkynntum að við yrðum að loka deildinni fyrir meira en ári síðan,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. Greint var frá því í gær að göngu­deild SÁÁ á Ak­ur­eyri verður lokað um óákveðinn tíma frá og með 1. mars.

Starfsemi SÁÁ var tryggð í fjárlögum í nóvember með 150 milljóna króna viðbótarfjármagni og var það í fyrsta sinn sem ríkið veitti sérstaka fjárveitingu til reksturs göngudeildarþjónustu.

Rekstur göngudeildarinnar á Akureyri kostar tvær milljónir á mánuði, að sögn Arnþórs. „Við getum ekki bæði veitt þjónustuna og borgað fyrir hana sjálf. Við getum ekki verið að reka svona kostnaðarsamt úrræði á meðan við erum að draga saman um 400 innlagnir á ári. Við erum að reyna að komast hjá því að fara á hausinn.“

Segir bráðaþjónustunni sent langt nef

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vakti athygli á rekstrarvanda SÁÁ í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í morgun. „Það er með ólíkindum að við skulum horfa upp á það í dag, í vaxandi fíkniefnavanda, að bráðaþjónustunni sé sent langt nef og sýnd fyrirlitning eins og raun ber vitni hér og nú. Það er búið að leggja niður göngudeildina á Akureyri. Við erum að tala um bráðavanda ef ég skil það rétt,“ sagði Inga meðal annars.

Þá segist hún ætla að koma í ræðustól Alþingis hvern einasta dag til að kalla eftir því að markmiði stjórnvalda verði fullnægt. „Þó svo að sagt sé að það hafi ekki verið neitt sérstakt markmið með þessari fjárveitingu, og hæstvirtur heilbrigðisráðherra virðist ætla að útbýta þessu eftir „behag“, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við vissum öll sem hér erum inni hvert markmiðið var með þessari aukafjárveitingu til Sjúkrahússins Vogs eins og ég vil kalla það.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert