Vilja hjálpa álft að losna við áldós

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum fylgst með henni hérna undanfarna daga,“ segir Linda Hrönn Eggertsdóttir, hjúkrunarfræðingur og íbúi í Urriðaholti í Garðabæ, í samtali við mbl.is en íbúar í hverfinu hafa haft talsverðar áhyggjur af álft á Urriðakotsvatni sem fest hefur gogginn í áldós. Þannig hefur ástand álftarinnar verið í að minnsta kosti nokkrar vikur.

Linda segist hafa reynt að hafa samband við ýmsa vegna málsins í von um að hægt verði að hjálpa álftinni. Fyrir utan óþægindin, og að öllum líkindum sársaukann, af því að vera með áldósina fasta við gogginn sé ljóst að álftin á erfitt með að nærast við þessar aðstæður. Hins vegar hafi enginn enn fengist til þess að gera eitthvað í málinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir vikið séu íbúarnir farnir að velta fyrir sér að reyna að handsama álftina sjálfir og losa hana við þennan aðskotahlut. Meðal annars hefur verið haft samband við Garðabæ. „Við ætlum að reyna að hafa samband aftur við bæinn því þeim ber að hjálpa dýrinu.“

Linda segist aðspurð hafa fylgst með álftinni frá því fljótlega eftir síðustu helgi. „Þá var hún særð. Þá var hún öll ötuð í blóði og krummi farinn að atast í henni. Hún virðist hins vegar vera að ná sér betur, hún er styrkari núna. En við höfum ekki séð hana fljúga.“ Linda segir álftina hafa áður sést við Lækinn í Hafnarfirði fyrir nokkrum vikum.

„Þá var hún líka með dósina fasta við gogginn. Hún virðist einhvern veginn hafa farið með gogginn inn í dósina. Hún er búin að reyna að losa sig við dósina, nudda sér utan í tré og svona. Það þarf bara skipulagða aðgerð til þess að hjálpa henni.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert