Fagna frumvarpi Kristjáns Þórs

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík fagnar nýju frumvarpi …
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík fagnar nýju frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar ráðherra flokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, fagn­ar frum­varpi Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar, land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, um að heimila inn­flutn­ing á fersku kjöti og eggj­um frá ríkjum innan EES-svæðisins. Þetta kemur fram í ályktun fulltrúaráðsins, sem fundað hefur um málið.

Í ályktuninni segir að um sé að ræða „skynsamlegt frumvarp sem leiðir saman sjónarmið um viðskiptafrelsi og matvælaöryggi og þræðir þar gullinn milliveg“ og að aukið verslunarfrelsi af þeim toga sem boðað er í frumvarpinu feli í sér veigamikla kjarabót fyrir neytendur hér á landi sem munu framvegis njóta áður óþekkts valfrelsis við matarinnkaup sín.“

Þá segir í ályktuninni að þar sem matarinnkaup séu stór útgjaldaliður á flestum heimilum landsins sé þetta frumvarp og sú kjarabót sem það feli í sér fyrir neytendur, „jákvætt innlegg í þær viðkvæmu kjaraviðræður sem nú standa yfir“.

„Engin ástæða er til að óttast hið aukna valfrelsi sem íslenskum neytendum er þarna veitt enda felur frumvarpið það jafnframt í sér að sterk staða Íslands þegar kemur að vörnum gegn matvælasýkingum verður tryggð með nýju lagaákvæði þess efnis að óheimilt verði að dreifa alifuglakjöti nema matvælafyrirtæki geti sýnt fram á að kjötið sé ekki sýkt af kampýlóbakter. Samhliða framlagningu frumvarpsins hafa stjórnvöld svo kynnt tólf skrefa aðgerðaáætlun sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu,“ segir í ályktun Varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert