Siðferðisgáttin og sálfræðistofa í samstarf

Helgi Héðinsson, Rakel Davíðsdóttir, Andri Hrafn Sigurðsson, Katrín Kristjánsdóttir, Þórkatla …
Helgi Héðinsson, Rakel Davíðsdóttir, Andri Hrafn Sigurðsson, Katrín Kristjánsdóttir, Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingar hjá Lífi og sál, og Katrín S. Óladóttir framkvæmdastjóri, Áslaug Kristinsdóttir, Gyða Kristjánsdóttir og Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir, ráðgjafar frá Hagvangi. Ljósmynd/Hagvangur

Hagvangur mun hér eftir vísa þeim málum sem koma í gegnum Siðferðisgáttina til sálfræðistofunnar Lífs og sálar ehf., séu málin þess eðlis að það þurfi að fara fram formleg athugun á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi eða annars konar ofbeldi, óski viðkomandi fyrirtæki, með Siðferðisgátt starfrækta, eftir tilvísun.

Samningur þess efnis var undirritaður í gær. Hagvangur kynnti á dögunum Siðferðisgáttina, þjónustu sem hefur það að markmiði að styrkja stoðir góðrar vinnustaðamenningar með því að bjóða starfsmönnum fyrirtækja að koma á framfæri beint til óháðs teymis innan Hagvangs ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað.

Í tilkynningu frá Hagvangi segir að sérhæft ráðgjafateymi innan Hagvangs muni annast þau mál sem koma upp í gegnum Siðferðisgáttina og er fyllsta trúnaðar gætt á milli ráðgjafateymisins og viðkomandi aðila. Hagvangur hefur hlotið viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu sem ráðgefandi um sálfélagslega áhættuþætti á vinnustöðum.

Líf og sál sálfræðistofa, hefur sinnt athugunum á málum er snúa að einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi á vinnustöðum frá árinu 2002 og hefur því mikla reynslu af slíkum málum. Líf og sál hefur hlotið viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu sem ráðgefandi aðili um sálfélagslega áhættuþætti á vinnustöðum.

Samstarf þetta mun styrkja þjónustu Siðferðisgáttarinnar enn frekar þar sem gætt er að faglegum vinnubrögðum við úrvinnslu allra mála.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert