4.100 unglingar á einum stað

Hátíðin Samfés hefur verið haldin áratugum saman og er þessi …
Hátíðin Samfés hefur verið haldin áratugum saman og er þessi mynd tekin á hátíðinni árið 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stærsta unglingaskemmtun landsins fer fram í Laugardalshöll um helgina þegar 4.100 unglingar og 400 starfsmenn úr félagsmiðstöðvum landsins koma saman til þess að skemmta sér á SamFestingnum, árlegri hátíð Samfés.

Í fréttatilkynningu segir að allt starfsfólk og unglingarnir sem koma séu búin að fá fræðslu um hugtökin mörk og samþykki og hvernig þau geta tekið virkan þátt í baráttunni gegn ofbeldi og látið raddi sínar heyrast. Fræðslan „Unglingar gegn ofbeldi“ sem var skylda fyrir þátttöku á SamFestingnum í ár er samstarfsverkefni Samfés, Stígamóta og #sjúkást.

Í kvöld fara fram tónleikar með tónlistarfólki sem er valið af ungmennaráði Samfés og á laugardaginn fer Söngkeppni Samfés fram í beinni útsendingu á RÚV.

Hátíðin var fyrst haldin í Hinu húsinu, gamla Þórscafé í Brautarholti, haustið 1991 og næstu þrjú árin á eftir. Hljómsveit spilaði í aðalsal hússins og plötusnúðar þeyttu skífum í öðrum. Um það bil fjögur til fimm hundruð krakkar sóttu skemmtunina á þessum árum og þá eins og nú var það mikið keppnismál að ná í miða, segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert