Reynir á frárennsliskerfi

Niðurföll geta stíflast og því gott að huga að þeim.
Niðurföll geta stíflast og því gott að huga að þeim. mbl.is/Eggert

Nú er farið að bæta í vind og hlýna. Með morgninum bætir talsvert í rigningu sunnan og vestan til og hitinn fer víða í 5 til 8 stig. Búast má við miklum leysingum um allt land og í þéttbýli reynir mikið á frárennsliskerfi og góð leið til að fyrirbyggja vatnstjón er að greiða leið vatns í niðurföll, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Á Norðurlandi sem og sums staðar á Vestförðum og Austfjörðum er meiri snjór en syðra og þar geta myndast aðstæður til aukinnar snjóflóðahættu. Eins munu ár og lækir ryðja sig víðast hvar og við þannig aðstæður geta myndast klakastíflur. Sem sagt, árvekni getur borgað sig.

Veðurhorfur næstu daga

Vaxandi suðaustanátt og snjókoma eða slydda í fyrstu á Suður- og Vesturlandi, en síðar rigning. Víða suðaustan 10-18 í dag og 13-20 norðvestanlands um kvöldið. Talsverð rigning, en úrkomulítið norðaustan til á landinu. Hlýnandi, hiti 4 til 8 stig síðdegis.
Suðvestan 8-15 á morgun en 13-20 N- og NV-lands. Skúrir framan af degi en síðan dálítil él. Bjartviðri á austanverðu landinu. Kólnar smám saman, hiti um og rétt fyrir frostmarki um kvöldið.

Á þriðjudag:

Suðvestan 10-18 og dálítil él, en léttir til austanlands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast austast, en í kringum frostmark um kvöldið. 

Á miðvikudag:
Allhvöss sunnanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið norðan til á landinu. Hiti 1 til 6 stig. Vestlægari með éljum og kólnar síðdegis, fyrst V-lands. 

Á fimmtudag:
Suðvestanátt. Víða snjókoma eða slydda, þurrt norðanlands framan af degi en él um landið vestanvert. Hiti um eða undir frostmarki. 

Á föstudag:
Vestlæg átt og él, en þurrt austanlands. Frost um mestallt land. 

Á laugardag:
Vestlæg átt, stöku él og kalt í veðri, en bætir í ofankomu um landið sunnan- og vestanvert þeegar líður á daginn. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir áframhaldandi suðvestlæga átt með éljum sunnan og vestan til. Hiti um og undir frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert