Ísland fullgildi landslagssamning Evrópu

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að Ísland fullgildi landslagssamning Evrópu.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að Ísland fullgildi landslagssamning Evrópu. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að Ísland fullgildi landslagssamning Evrópu. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins, en samningnum er ætlað að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags ásamt því að koma á fót evrópsku samstarfi um landslag.

Almenn ákvæði samningsins snúa einkum að því að í löggjöf sé fjallað um landslag og mikilvægi þess í umhverfi landsins viðurkennt og að mótuð sé stefna um landslag sem miðar að verndun, nýtingu og skipulagi og henni framfylgt. Þá sé aðkoma almennings og annarra að mótun stefnu um landslag tryggð og hugað sé að landslagi við aðra stefnumótun, svo sem í stefnu um byggðaþróun, menningarmál, landbúnað, félagsmál og efnahagsmál.

„Landslagssamningurinn hverfist ekki einungis um að varðveita náttúrulegt umhverfi heldur einnig um tengsl manns og lands. Landslag er sameiginlegur náttúru- og menningararfur hverrar þjóðar og um leið uppspretta margvíslegra gæða sem hafa áhrif á líðan okkar sem einstaklinga og sem samfélags. Fullgilding samningsins mun marka tímamót – með henni er staðfestur vilji stjórnvalda til að stuðla að landslagsvernd,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í fréttinni.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun bera ábyrgð á innleiðingu og framfylgd samningsins í samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins.

mbl.is