Dregur úr skjálftahrinunni

Stærsti skjálftinn síðustu tvo sólarhringa mældist 2,4 að stærð og …
Stærsti skjálftinn síðustu tvo sólarhringa mældist 2,4 að stærð og varð hann um klukkan 14 í gær. Kort/Veðurstofa Íslands

Dregið hefur mikið úr skjálftahrinunni í Öxarfirði, um 6 kílómetra suðvestur af Kópaskeri, sem hófst laugardaginn 23. mars. Hrinunni er þó ekki lokið að sögn jarðvísindamanna Veðurstofu Íslands.

Fram kemur á vefsíðu Veðurstofunnar að áfram mælist skjálftar, en engir skjálftar yfir 3 að stærð hafa þó mælst síðustu tvo sólarhringana og aðeins tveir sem voru yfir 2 að stærð.

Í heildina hafa átta skjálftar mælst sem voru af stæð 3 og yfir, en stærsti skjálftinn var af stærð 4,2 og reið yfir 27. mars.

Áætlaður fjöldi skjálfta í hrinunni frá sjálfvirkum mælingum er um 2.600 skjálftar frá því hún hófst. 27. - 29. mars mældust yfir 500 skjálftar á dag, þar af var mest virkni 28. mars, um 780 skjálftar. 

Í dag hafa mælst um rúmlega 40 skjálftar frá miðnætti. Allir undir 2 að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert