Seinkanir og fólk fast um borð í vélum

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Isavia ákvað að taka nokkra landganga úr notkun á Keflavíkurflugvelli vegna hvassviðris sem gengur yfir landið. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir það samkvæmt öryggisreglum.

„Við þurftum að taka allar landgöngubrýr úr notkun klukkan tvö í dag vegna vindhraða. Vindhraði fór yfir 50 hnúta og hefur haldist þannig síðan þá,“ segir Guðjón en það jafngildir rétt rúmum 25 m/s.

Hann segir að ellefu Icelandair-vélar og tvær Wizz air-vélar bíði í stæði og farþegar í vélunum bíði þess að komast frá borði.

Samkvæmt Guðjóni notar Icelandair stigabíl til að hleypa fólki frá borði en hann segir ljóst að það tefji við að hleypa fólki frá borði.

Um leið og vindhraði fer undir 50 hnúta verða landgangar teknir aftur í notkun.

Samkvæmt vefsíðu Keflavíkurflugvallar hefur Icelandair þurft að seinka 14 flugferðum frá Keflavík vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert