Ný lyfta skref í átt að bættum eldvörnum Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja.
Hallgrímskirkja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný lyfta er í uppsiglingu í Hallgrímskirkjuturni. Henni verður komið fyrir í sömu lyftugöngum og hin gamla var í en sú var orðin 50 ára gömul. Framkvæmdunum fylgja bættar brunavarnir á alla kanta, að sögn Sigríðar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra kirkjunnar. Meðan á þeim stendur verður kirkjuturninn lokaður gestum, enda stiginn upp einvörðungu neyðarútgangur. Framkvæmdirnar hefjast eftir páska og taka fimm vikur.

„Við erum að endurnýja lyftuna. Sú gamla var búin að þjóna okkur ansi vel áratugum saman en hún var komin á tíma,“ segir Sigríður. Í fyrra komu 300.000 gestir í Hallgrímskirkju að njóta útsýnisins uppi í kirkjuturni. Gamla lyftan tók 6-8 manns, 630 kg, og sú nýja verður jafnstór, þar sem göngin gefa ekki svigrúm til stækkana. Hún verður samt hærri og fljótari upp 50 metrana sem göngin eru.

Það verður töluverð röskun meðan á uppsetningunni stendur, að sögn Sigríðar. Framkvæmdir hefjast 23. apríl og þeim á að ljúka 27. maí. Á meðan geta ferðamenn ekki kíkt upp í turn en Sigríður segir að maímánuður hafi verið valinn því þá hafa annirnar verið minnstar, og tekjutapið þannig lágmarkað.

Kostnaðurinn við uppsetningu nýju lyftunnar og við bætta almenna eldvarnaumgjörð í kirkjunni mun nema um 40 milljónum króna. Sigríður segir að vinna hafi staðið yfir síðan 2009 að bættum öryggismálum og að lyftan sé eitt af stóru skrefunum á þeirri leið. „Þetta er aðeins meiri framkvæmd en bara venjuleg lyfta,“ segir Sigríður. Í framkvæmdunum verða lyftugöngin gerð að svokölluðu brunahólfi, sem gerir að verkum að hún verði reykþétt og geti verið notuð í neyðarástandi. Að auki verður hún með eigin óháðan aflgjafa, ef annað rafmagn bregst.

Heimsóknir í turninn skiluðu 289 milljónum króna í fyrra og mestu annirnar eru yfir sumartímann og þá er opið lengur, segir Sigríður. Hún segir sóknina þó enn skulda töluvert fyrir viðgerðir sem gerðar hafa verið undanfarið á kirkjunni og að áfram sé frekari viðgerða þörf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert