Hjón dæmd fyrir brot gegn dætrum sínum

Maðurinn var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir brot gegn …
Maðurinn var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir brot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjón á Suðurnesjum voru í dag sakfelld fyrir gróf kynferðisbrot gegn dóttur konunnar og dóttur sinni í Héraðsdómi Reykjaness. Maðurinn var dæmdur í 6 ára fangelsi og konan var dæmd í 5 ára fangelsi, samkvæmt Kolbrúnu Benediktsdóttur saksóknara, en RÚV greindi fyrst frá niðurstöðu dómsins, sem hefur ekki verið birtur á vef dómstólsins.

Kolbrún segir í samtali við mbl.is að þessi niðurstaða sé í ágætu samræmi við þær refsikröfur sem ákæruvaldið gerði í málinu. Hún segist ekki vita hvort hjónin hyggist áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar, en þau voru bæði úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi allt frá því í júlí í fyrra. Þá var konan líka hneppt í tveggja vikna varðhald, en síðan sleppt þar til ákæra var gefin út í málinu í október. Þá var hún aftur hneppt í varðhald, en héraðssaksóknari taldi að ef brot henn­ar væru jafn al­var­leg og henni væri gefið að sök myndi það bæði valda hneyksl­un og særa rétt­ar­vit­und al­menn­ings gengi hún laus.

Konan var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir hlutdeild sína …
Konan var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í brotunum gegn dætrum hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfðu játað brot sín að hluta

Við þing­fest­ingu máls­ins í októ­ber játuðu hjón­in brot sín að hluta, en í ákæru kom fram að þau hefðu brotið kynferðislega gegn dóttur konunnar í sameiningu í febrúar í fyrra og tekið bæði hreyfi- og ljósmyndir af brotunum. Dóttur konunnar voru dæmdar 2,5 milljónir króna í miskabætur.

Hjónin voru einnig í ákæru sögð hafa framið brotin að dóttur sinni viðstaddri, þannig að hún horfði á foreldra sína brjóta gegn hálfsystur sinni. Með því voru hjónin sögð hafa ógnað velferð stúlkunnar á alvarlegan hátt.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni á heimili fjölskyldunnar 807 ljós­mynd­ir og 29 mynd­skeið sem sýndu börn­in á kyn­ferðis­leg­an hátt.

Einnig var hann ákærður fyr­ir brot á vopna­lög­um þar sem á heim­ili hjón­anna fannst mikið af eggvopn­um, meðal ann­ars 50 senti­metra langt sverð, butterfly-hníf­ur, tveir stungu­hníf­ar, kast­hníf­ur og slöngu­byssa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert