„Það eru nefnilega ekki allir eins“

Með okkar augum 2019 - Steinunn Ása, Magnús, Elva, Ásgeir, …
Með okkar augum 2019 - Steinunn Ása, Magnús, Elva, Ásgeir, Katrín og Andri. Ljósmynd/Elín Sveinsdóttir

Þau voru beðin um að vera með og sögðu já. Flóknara var það nú ekki þegar þau Elva Björg Gunnarsdóttir og Magnús Orri Arnarson slógust nýverið í hóp umsjónarmanna eins vinsælasta og langlífasta sjónvarpsþáttar landsins; Með okkar augum. Þátturinn hefur verið sýndur á RÚV frá árinu 2010 og mun hefja göngu sína 9. árið í röð í haust. Magnús segir að ein skýringin á vinsældum þáttana sé sú að þeir sýni að fatlað fólk er ekki einsleitur hópur. „Það eru nefnilega ekki allir eins,“ segir Magnús.

Í þættinum skoðar fólk með þroskahömlun málefni líðandi stundar, spyr spurninga, skemmtir og fræðir og í næstu þáttaröð verða sex umsjónarmenn, sem eru, auk Elvu og Magnúsar, þau Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, Katrín Guðrún Tryggvadóttir, Ásgeir Tómas Arnarson og Andri Freyr Hilmarsson. Elva segist ekki hafa starfað áður við fjölmiðla, en þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar henni var boðið starfið. „Ég hlakka til að hitta allskonar fólk og taka viðtal við það,“ segir Elva, en tökur á næstu þáttaröð hefjast í næstu viku.

Spurð hvernig hún hyggist setja mark sitt á þáttinn segist hún gjarnan vilja leggja meiri áherslu á íþróttir. „Ég hef mikinn áhuga á íþróttum, ég hef verið í fimleikum í 21 ár og unnið við fimleikaþjálfun,“ segir Elva sem sinnir ýmsum verkefnum hjá fimleikafélaginu Gerplu og vinnur auk þess í Bæjarlínu Kópavogs, sem er rúta sem ekur skólabörnum í Kópavogi á íþróttaæfingar. „Ég passa upp á að þau hagi sér vel,“ segir Elva og hlær.

Magnús kom að vinnslu og klippingu kynningarmyndbands fyrir Heimsleika fatlaðra, en þættir um leikana voru nýverið sýndir á RÚV. Reyndar tók Magnús sjálfur þátt í leikunum þar sem hann keppti í fimleikum, en við vinnslu myndbandsins komst hann í kynni við framleiðendur Með okkar augum og var í framhaldinu boðið að slást í hópinn. „Ég sagði strax já,“ segir Magnús sem stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann lærir m.a. kvikmyndagerð, en hann hefur klippt myndefni síðan hann var sex ára. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert