„Sýndu mömmu þinni hvað þig þykir vænt um hana“

„Dagurinn mömmu þinnar“ er í þessu tilviki ósennilega dæmi um …
„Dagurinn mömmu þinnar“ er í þessu tilviki ósennilega dæmi um Ólafsfjarðareignarfallið, sem leyfir greini á eignarorðinu. Dagurinn mömmu þinnar virðist öllu heldur afsprengi þýðingar gerðrar í snatri. Skjáskot/Facebook

„Hey, Ekki gleyma mæðradeginum. Sýndu mömmu þinni hvað þig [sic] þykir vænt um hana með fullkomnari [sic] gjöf sem hún mun dýrka“, segir í ávarpi Kredia til væntanlegra smálántakenda í nýrri auglýsingu. Yfirskriftin er „dagurinn mömmu þinnar.“

Í aðdraganda stórhátíða, jóla, þjóðhátíðardagsins 17. júní, eða jafnvel bara þegar fer að líða að helgum í venjulegum vikum auglýsa ólögleg smálánafyrirtæki sérstaklega. Með því láta þau fólki líða eins og þau séu verri að eiga ekki fyrir því að halda uppá sérstök tímamót. Eða það segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.

Auglýsinguna sem greint er frá hér birti Ólafur Arnarson, hagfræðingur og fyrrum formaður Neytendasamtakanna, á Facebook. Þar leggja ýmsir orð í belg, þar á meðal Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar: „Dagurinn mömmu þinnar? Hvað þykir þig vænt um? Fullkomnari gjöf en hvað? Þetta er nú meiri hroðinn - hugmyndin er ömurleg og textavinnslan sömuleiðis.“

„Þetta er svívirðilega ágeng auglýsing sem er beint að fólki sem á það ekki skilið. Þetta er ólíðandi. Þarna er verið að ólögleg lán og miðillinn sem er að auglýsa tekur þátt í þessum, hver sem hann er. Það er grafalvarlegt,“ segir Breki í samtali við mbl.is

Lögleg fyrirtæki aðstoða ólögleg fyrirtæki

Svo ber við að í morgun sendu Neytendasamtökin kröfu á fjárhagsupplýsingastofuna Creditinfo að hætta þjónustu við ólögleg smálánafyrirtæki.

„Ég geri greinarmun á löglegum smálánafyrirtækjum með svívirðilega vexti og ólöglegum smálánafyrirtækjum með ólöglega vexti,“ segir Breki í samtali við mbl.is. Þessi krafa snýr að þjónustu við hin síðarnefndu.

„Við krefjumst þess að Creditinfo taki fólk útaf vanskilaskrá sem er þar útaf ólöglegum smálánum,“ segir Breki. Með því að hafa fólk á vanskilaskrá vegna þessara ólöglegu smálána, séu innheimtufyrirtækin í rauninni að gera þessum ólöglegu fyrirtækjum kleift að halda áfram starfsemi.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Smálánafyrirtækin gætu ekki starfrækt sína ólöglegu starfsemi nema fyrir það að lögleg fyrirtæki eru að aðstoða þau.Við hvetjum fyrirtæki, eigendur þeirra og stjórnendur, að hætta að styðja við ólöglega smálánastarfsemi með því að þjónusta fyrirtækin,“ segir hann.

Óviðunandi starfshættir

Hann segir ólöglegu smálánafyrirtækin, sem sum eru rekin á erlendum kennitölum, stunda sérstaklega ágenga kynningarstarfsemi. „Þetta eru þau fyrirtæki á landinu sem eru því miður duglegust að hafa samband við viðskiptavini sína. Það gera þau oftar en ekki með því að höfða til þessara tilfinninga hjá fólki, eins og í aðdraganda stórhátíða,“ segir hann.

„Þetta er fólk sem er í mjög misjafnri aðstöðu til að geta varið sig. Það er af margvíslegum ástæðum. Þessar aðferðir sem Creditinfo hafa svo verið að beita, að senda fólki bréfpóst, þær sæma ekki. Ég krefst þess að þeir breyti starfsháttum sínum og hætti að skipta við þessi fyrirtæki,“ segir Breki.

Loks segir í bréfi Neytendasamtakanna að þess sé krafist að Creditinfo hverfi frá því að beita lántaka meintri öfugri sönnunarbyrði. „Creditinfo taka allar óskir smálánafyrirtækja gagnrýnislaust og setja fólk á lista. Svo þarf fólk sjálft að kæra sig útaf vanskilaskrá. Þetta gera þeir í staðinn fyrir að krefja smálánafyrirtækin um að sýna fram á lögmæti þessara krafna. Það er eins og hver sem er geti gengið þarna inn og sagt þessi aðili skuldar mér 10 milljónir og svo þurfi meinti skuldarinn að svara fyrir það en ekki sá sem ber málið upp,“ segir Breki.

Frétt uppfærð 15.10:

Creditinfo áréttar að berist Creditinfo andmæli við skráningu eða fyrirhugaðri skráningu á kröfum sem ekki hafa verið staðfestar með opinberri réttargjörð, eru þær ávallt afskráðar. Hins vegar eru skráningar sem byggðar eru á opinberum upplýsingum, s.s. áritaðar stefnur, dómar og árangurslaus fjárnám, ekki afskráðar af vanskilaskrá við andmæli hins skráða, enda búið að staðfesta vanskil með opinberri réttargjörð. Vanskil vegna smálána eru sjaldnast skráningar sem byggja á opinberum upplýsingum og því alltaf afskráðar ef einstaklingur andmælir skráningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert