Bauð nudd og lagðist nakinn upp í rúm

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk þess sem honum var gert að greiða konu 350 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa áreitt hana kynferðislega.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa afklætt sig og lagst nakinn upp í rúm til konunnar, eftir að hún hefði látið undan þrábeiðni hans um að fá að nudda á henni bakið, en háttsemin hefði verið í óþökk hennar og til þess fallin að valda henni ótta.

Manninum var einnig gefið að sök að hafa ítrekað boðið konunni áfengi og með því brotið lög um að óheimilt sé að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Þar sem í ákærunni var ekki lýst háttsemi sem svaraði til þess verknaðar að afhenda ungmenni áfengi var því ákæru atriði vísað frá héraðsdómi, að því er kemur fram í dómi Landsréttar.

Kröfu konunnar um bætur vegna fjártjóns var vísað frá að sjálfsdáðum vegna vanreifunar.

Maðurinn var 42 ára þegar brotið var framið en konan 18 ára. Hún var þá nýráðin til starfa og stödd ein með ákærða á gistiheimili sem hann rak á afskekktum stað.

Maðurinn var í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir tæpu ári síðan dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og til að greiða tæplega 1,6 milljónir króna í sakarkostnað.

Í dómi Landsréttar kemur fram að áfrýjaði dómurinn skal vera óraskaður um sakarkostnað fyrir utan að hann þarf ekki að greiða kostnað ákæruvalds að fjárhæð 22 þúsund krónur.

Ákærði var einnig dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar, sem í heildina er tæpar 1,2 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert