Setti upp gaddaól í miðri messu

Guðbjörg setti ólarnar upp í fermingarræðunni en tók þær niður …
Guðbjörg setti ólarnar upp í fermingarræðunni en tók þær niður að henni lokinni áður en hún leiddi börnin inn í kærleikann. Ljósmynd/Aðsend

„Boðskapur Hatara greip mig strax og ég er mjög hrifin af því sem þessi hópur er að gera,“ segir Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur í Selfosskirkju, sem vakti athygli með því að setja upp gaddaólar í miðri fermingarmessu um helgina. Fyrst var grein frá á vef DFS.

„Í fermingarmessunni fer ég með smá brot úr textanum og kalla fram að þetta er nákvæmlega það sem við viljum ekki. Stundum fyllist ég vanmætti þegar ég sé hatrið sigra í heiminum, en ég á mér draum um að þetta unga, fallega fólk sem er að fermast velji leið kærleikans en ekki hatursins og breyti heiminum,“ segir Guðbjörg.

„Ég reyni að nota það sem er á allra vörum hverju sinni til þess að vekja fermingarbörnin og kalla á viðbrögð, sem var mjög gaman að sjá í messum helgarinnar.“

Hún segir Jesú sjálfan hafa kallað eftir betri heimi með róttækum hætti, rétt eins og Hatari sé að gera. „Fermingarbörnin muna kannski ekki nærri því allt sem við reynum að kenna þeim, en allavega óska ég þess að þau muni alltaf eftir Jesú og þá fylgir kærleikurinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert