Stálu 430 kílóum af humri úr frystigámi

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir karlmenn hafa í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdir fyrir margvíslegan þjófnað þar sem þeir stálu meðal annars rúmum 400 kílóum af humri úr frystigámi.

Í dómi héraðsdóms segir að aðfaranótt 4. febrúar í fyrra hafi þeir brotist inn í frystigám Humarsölunnar með því að klippa á hengilás gámsins og tekið þaðan alls 434 kg af humri. Verðmæti þess er rúmlega 1,7 milljón króna, en lögreglan fann 63 kg af humrinum í frysti í bílskúr annars þeirra.

Þá voru þeir dæmdir fyrir annað innbrot í október í fyrra, þar sem brotist var inn í apótek með því að brjóta upp festingu á glugga í kaffistofu. Þaðan tóku þeir svo lyf að verðmæti rúmlega 300 þúsund krónum. Lögreglan fann í framhaldinu rúmlega sex þúsund stykki af mismunandi lyfjatöflum á öðrum mannanna og heimili hans.

Annar mannanna var úrskurðaður í fimm mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en hinn var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Þá var þeim gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns og annan útlagðan kostnað.

mbl.is