Ný stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, er nýr formaður.
Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, er nýr formaður. Ljósmynd/Aðsend

Ný stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana var kjörin á aðalfundi félagsins í gær. Nýr formaður er Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands. 

Meðstjórnendur eru sex talsins og þeir eru; Árni Bragason landgræðslustjóri, Ársæll Guðmundsson skólameistari Borgarholtsskóla, Ásdís Ármannsdóttir sýslumaðurinn á Suðurnesjum, Halldór Ó. Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa, Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands og Kristján Sverrisson forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Framkvæmdastjóri félagsins er Jóhanna Á. Jónsdóttir lögfræðingur.

Forstöðumenn ríkisstofnana eru ekki í stéttarfélagi, hafa ekki verkfallsrétt eða samningsrétt í kjarasamningum. Þess í stað er það fjármálaráðherra sem ákveður föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns og önnur laun er starfinu fylgja, að því er segir í tilkynningu.

„Félagið hefur hlutverk, samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem felst í því samráð skuli haft við félagið í sambandi við launafyrirkomulag forstöðumanna og því skal gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna grunnmats starfa og forsendna viðbótarlauna fyrir hönd forstöðumanna.

Tilgangur félagsins er m.a. einnig að efla kynningu félagsmanna á stofnunum hver annars, stuðla að samstarfi félagsmanna og stofnana eftir því sem við á og að stuðla að fræðslustarfi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert