Vilja rafrettubann á skemmtistöðum

Þrír þingmenn VG vilja setja rafrettum sömu skorður og gilda …
Þrír þingmenn VG vilja setja rafrettum sömu skorður og gilda um tóbaksreykingar. AFP

Aðeins verður heimilt að nota rafrettur á veitinga- og skemmtistöðum ef hægt er að tryggja að öðrum gestum stafi ekki ónæði af notkuninni verði frumvarp þriggja þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs samþykkt.

Verður þessi takmörkun á notkun rafrettna „líkt og hefur verið gert með tóbaksreyk,“ að því er segir í greinargerð frumvarpsins. „Réttur þeirra sem ekki vilja nota rafrettur hlýtur því að þurfa að vera ríkari en réttur þeirra sem vilja nota þær.“

Þingmennirnir Ólafur Þór Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir segja í greinargerðinni að „neysla rafrettna í afmörkuðu rými á veitingastöðum eða skemmtistöðum, án tilhlýðilegrar loftræstingar eða afmörkunar, á […] ekki að skerða rétt annarra til að anda að sér ómenguðu lofti.“

Leggja þau þess vegna til að ný málsgrein bætist við lög um rafrettur sem miðar af því að setja frekari takmarkanir á notkun þeirra en þegar er til staðar. „Vegna óvissu um langtímaáhrif notkunar telja flutningsmenn málefnalegt að verja þá sem ekki vilja anda að sér rafrettureyk fyrir áhrifum notkunarinnar og því ónæði sem kann af því að hljótast.“

Þá segjast þingmennirnir gera sér grein fyrir því að notkun rafrettna geti stuðlað að því að einstaklingar láti af tóbaksreykingum, en lýsa þeir áhyggjur af vísbendingum um að aukin nikótín notkun ungmenna með rafrettum auki líkur á tóbaksnotkun.

„Með því að tryggja að notkunin á rafrettum sé takmörkuð, þó í litlu sé, er stigið mikilvægt skref í þá átt að setja mörk við notkuninni, án þess að draga úr þeim kostum sem notkun getur þó haft hjá þeim sem hafa tekið upp rafrettunotkun í stað tóbaksnotkunar.“

mbl.is