Tækni-, list-, og reiðnámskeið dýrust

Klukkustundin í sumarfrístund kostar 262 kr. hjá Reykjavíkurborg, 200 kr. …
Klukkustundin í sumarfrístund kostar 262 kr. hjá Reykjavíkurborg, 200 kr. hjá Seltjarnarnesbæ og 254 kr. í Hafnarfirði og er það meðal ódýrustu námskeiða sem börnum stendur til boða þetta sumarið. mbl.is/​Hari

Sumarfrístund hjá Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesi og Hafnarfirði og íþrótta- og leikjaskóli hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar er meðal ódýrustu námskeiða sem börnum stendur til boða í sumar á meðan námskeið í tækni/tölvum, listgreinum og reiðnámskeið eru meðal dýrustu námskeiðanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt verðlagseftirlits ASÍ á sumarnámskeiðum.

Kostnaður við að hafa barn á námskeiði yfir sumartímann er afar misjafn og fer eftir því hvort börn þurfa að vera allan eða hálfan daginn og hvers konar námskeið foreldrar vilja senda og/eða geta sent börn á.

Klukkutíminn á forritunarnámskeiðum hjá Skema kostar t.d. 1.300 kr., um 1.600 kr. hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík, 1.400 kr. í Kramhúsinu og frá 1.000 kr. upp í 1.600 krónur hjá hinum ýmsu reiðskólum. Þá kosta sumarbúðir talsverðar upphæðir þrátt fyrir að tímagjaldið sé ekki endilega svo hátt. Það er sennilega ekki á færi allra foreldra að senda börnin í sumarbúðir en 5 dagar í Vatnaskógi kosta 48.900 kr. og heil vika í Ölveri 56.800.

Sumarfrístund og skátanámskeið í ódýrari kantinum

Til samanburðar kostar klukkustundin í sumarfrístund 262 kr. hjá Reykjavíkurborg, 200 kr. hjá Seltjarnarnesbæ og 254 kr. í Hafnarfirði. Þá eru ýmis íþróttanámskeið í ódýrari kantinum og má þar nefna að klukkutíminn kostar 278 kr. á skautanámskeiði hjá Birninum/Fjölni, um 370 kr. í sumarskóla TBR (Badminton ofl), 288 kr. í Knattspyrnuskóla hjá Víkingi og 343 kr. í leikjanámskeiði hjá Val. Skátanámskeið eru einnig á frekar hagstæðu verði miðað við önnur námskeið en klukkutíminn á slíku námskeiði kostar um 400 kr.

Í frétt á heimasíðu ASÍ er tekið fram að skoðuð voru verð á námskeiðum íþróttafélaga, á vegum íþrótta- og tómstundarráða, sveitarfélaga, skátafélaga og frjálsra félagasamtaka.

Námskeiðunum í könnuninni er skipt eftir fjölda námskeiðsdaga og klukkustunda á dag. Víða er boðin gæsla á morgnana áður en námskeiðin hefjast, í hádeginu og eftir að dagskrá námskeiðanna lýkur á daginn. Misjafnt er hvort greiða þurfi aukalega fyrir þessa gæslu eða hvort hún er innifalin í námskeiðsgjaldinu. Sama er að segja um hádegisverð og hressingu, matur er sjaldnast innifalinn í námskeiðsgjaldinu en oft er hægt að kaupa heitan mat gegn vægu gjaldi.

Það gjald sem gefið er upp í könnuninni er ávallt miðað við eitt stakt námskeið þannig að ekki er tekið tillit til afsláttarverðs t.d. iðkendaafsláttar eða systkinaafsláttar. Við samanburð á verði námskeiða er því nauðsynlegt að hafa þetta í huga.

Hér má sjá allan verðsamanburð í töflu



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert