Mesta hækkunin hjá Iceland og Hagkaupum

Jólakarfan hækkaði mest í Iceland og Hagkaupum.
Jólakarfan hækkaði mest í Iceland og Hagkaupum. Samsett mynd

Verð á árlegri jólakörfu verðlagseftirlits ASÍ sem var tekin saman í gær hækkar mest í verslunum Iceland og Hagkaupa.

Verðið hækkar um í kringum 17% hjá Iceland á milli ára en um 16% hjá Hagkaupum.

„Iceland og Hagkaup virðast vera að færa vöruverð upp almennar yfir jólakörfuna á meðan í hinum verslunum er þetta nær verðbólgutaktinum,” segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, en niðurstöður könnunarinnar verða birtar á næstunni. Til samanburðar mældist tólf mánaða verðbólga í nóvember 8%.

Jólakarfan var dýrust í Iceland.
Jólakarfan var dýrust í Iceland. mbl.is/Hjörtur

Úr ódýrustu kókflöskunni í þá dýrustu

Benjamín nefnir að Iceland hafi farið úr því að vera með ódýrustu tveggja lítra kókflöskuna í jólakörfunni fyrir tveimur árum yfir í að bjóða upp á þá dýrustu.

Um miðjan desember árið 2021 kostuðu 2 lítrar af kók 195 krónur í verslunum Iceland. Ári síðar hafði verðið hækkað um 30%, eða í 259 krónur, og í gær hafði verðið á gosflöskunni hækkað um 70% til viðbótar, eða í 449 krónur.

Kók.
Kók. AFP/Karen Bleier

8-10% hækkun annars staðar

Í hinum verslununum, þ.e. Bónus, Krónunni, Kjörbúðinni, Nettó, Fjarðarkaupum og Heimkaupum, er hækkunin á jólakörfunni um 8 til 10% á milli ára. Að sögn Benjamíns eru allar verslanir að hækka verð á mjólkurvörum, sælgæti og snakki aðeins meira en á öðrum vöruflokkum frá því í fyrra.

Bónus.
Bónus. Ljósmynd/Aðsend

„Þurfa allir að standa saman“

Spurður hvort hækkanir sem þessar geti ekki aukið á verðbólguna í landinu segir Benjamín sameiginlegt verkefni allra á Íslandi að reyna að halda henni í skefjum.

„Það eru að koma kjarasamningar sem snúast að miklu leyti um að kaupmáttur er byrjaður að rýrna og að það þurfi að bregðast við því. Það þurfa allir að standa saman í að reyna að ná niður verðbólgu og vöxtum og verja lífskjör fólks, ekki síst þegar kemur að því að versla lífsnauðsynjar,” svarar hann.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert