Plast á víð og dreif um urðunarstöð

Rakel stillti sér upp á miðju urðunarsvæðinu og myndbandið sýnir …
Rakel stillti sér upp á miðju urðunarsvæðinu og myndbandið sýnir vel hvernig er umhorfs á svæðinu. Skjáskot/Rakel Steinarsdóttir

Rakel Steinarsdóttir myndlistamaður deildi myndbandi af urðunarstöðinni í Fíflholti á Mýrum á Facebook í gær, þar sem sjá má verulegt magn af plasti á víð og dreif um urðunarsvæðið. Í athugasemdum við færsluna tjá ýmsir áhyggjur sínar af ástandinu.

Framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands hf., fyrirtækis þess sem hefur umsjón með þessu eina sameinaða urðunarsvæði á Vesturlandi og tekur við úrgangi til urðunar frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, segir í samtali við mbl.is að plast eigi ekki að vera laust með þessum hætti. Hún fagnar vitundarvakningunni sem er að verða þar á.

„Fólk er ekki að flokka sem skyldi,“ segir framkvæmdastjórinn, Hrefna Bryndís Jónsdóttir. Hún segir að vandinn liggi ekki síst hjá fyrirtækjum á svæðinu. „Ég hef alltaf atvinnulífið með í þessari umræðu. Umræðan er mikil á heimilum. Hún verður þar til. Það verður vitundarvakning hjá fólki þegar það fer sjálft að flokka. En það vantar upp á það hjá fyrirtækjum,“ segir Hrefna Bryndís í samtali við mbl.is.

Þannig segir Hrefna heimilin farin að átta sig á skaðsemi þess að flokka ekki plast í sundur frá almennu rusli. Tveggja tunnu kerfi, með almennu sorpi og pappa, sé komið víðast en enn sé vinna eftir þegar kemur að því að koma upp þriggja tunnu kerfi á Vesturlandi, þar sem plast sé einnig greint að.

Hrefna bendir á að þættirnir Hvað höfum við gert á RÚV hafi vakið fólk til umhugsunar og að það sé að skila sér í vitundarvakningu. „Hins vegar þarf að vekja atvinnulífið, fyrirtækin, til umhugsunar. Atvinnulífið virðist ekki vera að flokka sem skyldi, til dæmis kemur enn mikið plast með í sorpi frá fiskvinnslum,“ segir Hrefna.

Þegar plast kemur með almenna ruslinu inn á urðunarstöðvar sem þessa í Fíflholti á Mýrum er nokkuð erfitt að eiga við plastið. Hrefna segir að yfirleitt séu menn í því að tína plast á svæðinu en það sé það sem fýkur mest. Sá úrgangur sé tekinn. „Það er hluti af starfseminni að hindra fok á þessum efnum,“ segir hún.

„Svona lítur bara starfsemi urðunarstöðva út“

Hún segist skilja að fólki sé brugðið við að sjá myndböndin en svona líti bara starfsemi urðunarstöðva út. „Umræðan í dag er á þá leið að urðun sé alltaf slæm en hún verður að ég tel alltaf til staðar. En það er mikilvægt að ekki sé verið að urða plast eða urða lífrænan úrgang,“ segir Hrefna.

„Svo er mjög slæmt að hafa plast laust, eins og er þarna,“ segir hún. Ötult sé þó unnið að því að koma í veg fyrir það. 

„Urðun verður til framtíðar en með talsvert breyttu sniði frá því sem nú er,“ segir Hrefna. „Evrópusambandið gerir kröfu um það að árið 2035 verði ekki urðað meira en sem nemur 10% af þeim heimilisúrgangi sem til fellur í löndum sambandsins.  Eitthvað svipað verður með atvinnulífið. Okkur ber því að minnka úrgang til urðunar jafnt og þétt samkvæmt reglum sem þaðan koma,“ bætir hún við.

„Það eru sveitarfélögin sem eru ábyrg fyrir úrgangsmálaflokknum í landinu samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 en þessi lög byggja á tilskipunum Evrópusambandsins,“ segir hún að lokum.

Hér er að sjá myndbandið umrædda:   

Einnig tók Rakel þetta myndband í fyrra á sama stað: 

mbl.is

Bloggað um fréttina