„Vekjaraklukka sem ætti að vekja okkur öll“

Skólastjórnendur vlija opinberar reglur um fjölda frídaga nemenda frá skóla.
Skólastjórnendur vlija opinberar reglur um fjölda frídaga nemenda frá skóla. mbl.is/Hari

79% skólastjórnenda segja leyfisóskum foreldra/forsjáraðila vegna fría innanlands og erlendis á skólatíma hefur fjölgað. Rúm 74% skólastjórnenda telja foreldra/forsjáraðila hafi of rúmar heimildir til að fá leyfi frá skólasókn fyrir börn sín. Tæp 79% skólastjórnenda segjast mjög hlynntir eða frekar hlynntir því að sett verði opinber viðmið, t.d. fjölda daga um leyfisveitingar vegna fría á skólatíma.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í könnun Maskínu á skólasókn grunnskólanema sem var gerð að beiðni Velferðarvaktarinnar. Könnunin var gerð á meðal skólastjórnenda 18. janúar til 11. febrúar árið 2019 og var svarhlutfallið 78,5%. Niðurstaða hennar var kynnt og hún rædd á málþinginu, Skólasókn – skólaforðun. Hvert er hlutverk stjórnvalda, skóla og foreldra?, í morgun. 

Hér er hægt að sjá upptökur af málþinginu. 

Nýr tengill uppfærður 22. maí kl.15:08  
Foreldrar sem taka börnin mikið úr skólanum til að fara í frí kalla skólaforðun yfir börnin í framhaldinu. Tengsl eru þarna á milli. Þetta segir Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, sem kynnti helstu niðurstöður. Hún tók einnig fram að vilji skólastjórnenda til breytinga væri skýr og þeir væru „hlynntir því að það verði sett viðmið til að hemja þessa þróun,“ segir Siv.  

Um 46,6% skólastjórnenda segja þetta komi mjög mikið og/eða fremur mikið niður á námi barnanna. „Ég held að foreldrar geri sér ekki grein fyrir þessu. Ég held að foreldrar telji að þetta styrki barnið. Þetta er að mínu mati vekjaraklukka sem ætti að vekja okkur öll til umhugsunar og aðgerða,“ segir Siv. 

Ástæður skólaforðunar að mati skólastjórnenda eru helst andlegs eðlis eða um 75,8% telja andlega vanlíðan, kvíða eða þunglyndi liggja að baki. 29,3% eru erfiðar aðstæður á heimili.  

Ástæðan fyrir því að skólastjórnendur neita sjaldan er meðal annars bréf frá menntamálaráðherra frá árinu 2000 sem vísað er til. Sama ár lýsti einn grunnskóli á höfuðborgarsvæðinu áhyggjum sínum af fjölda óska foreldra um frí barna sinna frá grunnskóla. Bréf var sent til menntamálaráðuneytisins þar sem spurst var fyrir um rétt foreldra til að taka börnin sín úr skóla tímabundið vegna ferðalags. Þar kemur meðal annars áfram að foreldrar beri ábyrgð á því að nemandinn vinni upp það sem hann missir úr námi á meðan hann er í fríi. 

„Þetta hefur verið haft að leiðarljósi síðan. Það hefur ekki verið reynt á þetta nýlega,“ segir Siv.    

Tæplega þúsund börn eða um 2,2% grunnskólanemenda glíma við skólaforðun, að mati skólastjórnenda. Siv tekur fram að þetta hlutfalli hafi ekki verið skoðað með tillit til annarra landa.  

Skólaforðun er þegar barn eða unglingur forðast að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma s.s. Mætir ekki í skólann vegna tilfinningalegra erfiðleika, til að forðast aðstæður, til að fá athygli frá fjölskyldu eða öðrum í umhverfi sínu eða vegna þess að aðrir staðir eru áhugaverðari.

Velferðarvaktin leggur til nokkrar tillögur til að sporna gegn þessari þróun. Þær eru meðal annars að sett verði af stað vinna sem miði að því að setja opinber viðmið um skólasókn á Íslandi og/eða auka heimildir stjórnenda til að hafna leyfisóskum. Ýtt verði undir viðhorfsbreytingu um að borin sé virðing fyrir skólasókn barnanna. Stuðningur við aukinn til að fyrirbyggja skólaforðun og að samræma fjarvistaskráningar um allt land til að fylgjast með umfangi skólaforðunar.  


 

Siv Friðleifsdóttir formaður Velferðarvaktarinnar.
Siv Friðleifsdóttir formaður Velferðarvaktarinnar. mynd/Johannes Jansson/norden.org
mbl.is