„Bjóða ódýrasta dropann sem er í boði“

Hlutdeild Costco á eldsneytismarkaði hérlendis er að minnsta kosti 10%, …
Hlutdeild Costco á eldsneytismarkaði hérlendis er að minnsta kosti 10%, að sögn framkvæmdastjóra FÍB, þó að bensínstöðin sé einungis ein af 260-270 stöðvum á landinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á morgun verða tvö ár liðin frá því bandaríski verslunarrisinn Costco opnaði verslun sína og bensínstöð í Kauptúni í Garðabæ, við mikinn fögnuð margra, sem töldu að verslunin myndi gjörbylta landslaginu á íslenskum dagvöru- og bensínmarkaði.

Þjóðin tók þessum nýja valkosti í verslun vel og samkvæmt könnun MMR frá því í janúar í fyrra voru 71% Íslendinga með kort í Costco, 77% íbúa á höfuðborgarsvæðinu og 60% íbúa í landsbyggðunum. Samkvæmt könnun sem Gallup vann fyrir Viðskiptablaðið síðasta vor ætluðu 85% allra korthafa að endurnýja aðild sína, að einu ári liðnu.

En hvernig meta talsmenn neytenda áhrifin af Costco? Blaðamaður hafði samband við einstaklinga sem fást við það að gæta að hagsmunum neytenda og fékk þá til að leggja eigið mat á það hvaða áhrif Costco hefði haft hér á landi síðustu tvö árin.

Afgerandi meiri munur á eldsneytismarkaði

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að Costco hafi komið inn á markaðinn „með háum skelli“ og að það hafi haft víðtæk áhrif á verðlag hér á landi. „Þeir höfðu mikil áhrif á bensínmarkaðinn, með því að vera leiðandi í því að vera með lágt verð. Því meiri samkeppni, því fleiri sem eru á markaðnum, því hagstæðara er verðið fyrir neytendur,“ segir Breki.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að Costco hafi komið inn …
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að Costco hafi komið inn með hvelli á markaðinn. Sjálfur fer hann ekki lengur þangað, aðallega þar sem honum ofbýður plastnotkunin í búðinni. mbl.is/Eggert

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, tekur í sama streng og telur áhrif Costco hafa verið umtalsverð, ekki síst á þann markað sem tengist bílum, en auk þess að selja bensín selur Costco hjólbarða og starfrækir dekkjaverkstæði.

„Við sjáum það enn þá að þeir eru að bjóða ódýrasta dropann sem í boði er og munur á milli þeirra sem eru með dýrasta eldsneytið og hins vegar þeirra sem eru að bjóða það ódýrasta er afgerandi meiri en við sáum áður á markaðnum,“ segir Runólfur og bætir við að áhrifin á hjólbarðamarkaðinn hafi verið sérlega mikil, til lækkunar.

Morgunblaðið greindi frá því sumarið 2017 að hlutdeild bensínstöðvar Costco í Kauptúni, sem upphaflega var með 12 dælum en fékk síðar leyfi til að bæta við fjórum dælum til viðbótar til þess að anna gríðarlegri eftirspurn, væri 15% og Runólfur segir að hann hafi heyrt út undan sér að hlutdeildin væri að minnsta kosti yfir 10% þessa dagana.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum að tala um 260-270 stöðvar á landinu og að þessi eina sé með 10%, hún er reyndar stór, en samt, það sýnir umfangið. Fólk er tilbúið að leggja á sig að bíða í biðröð og leggja í aðeins lengri ferð til þess að fá aðeins ódýrari dropa. Verðmunurinn er þarna til staðar, sjálfsafgreiðsla hjá N1 og Olís á bensíni í dag er 243,60 kr. og það kostar 207,90 kr. að taka bensínlítra hjá Costco,“ segir Runólfur.

Aðrar vörur sem tengjast rekstri bifreiða hafa einnig lækkað í verði eftir að Costco kom til sögunnar og þar nefnir Runólfur sérstaklega rafgeyma, smurolíur og ryðleysi. Þessar vörur lækkuðu alls staðar eftir að Costco opnaði verslun sína og segir Runólfur að verðið hafi haldist  „Þetta hefur skilað sér inn á markaðinn, samkeppnisaðilar hafa lækkað verð á móti. Eitthvað af þessum vörum byrjuðu ódýrari hjá Costco og svo hækkað eitthvað í verði, en ekki náð í sömu verð og þeir voru í áður en þeir komu inn á markaðinn.“

Fólk er tilbúið að leggja lykkju á leið sína og …
Fólk er tilbúið að leggja lykkju á leið sína og jafnvel bíða í biðröð fyrir ódýrara eldsneyti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minni áhrif en vonir stóðu til

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ, segir að áhrifin af komu Costco til landsins á verðlag hafi verið minni en hún hafi vonast eftir, en þó hafi Costco sem stór aðili á markaði aukið við samkeppnina og að vöruframboð hafi að einhverju leyti breyst í öðrum verslunum með tilkomu Costco – og nefnir sérstaklega að framboð af ferskum berjum hafi aukist.

Auður segir að áhrif á verðlag hafi verið mest fyrstu mánuðina eftir að verslunin opnaði fyrir tveimur árum, en síðan hafi Costco í auknum mæli aðlagað sig markaðnum og markaðurinn sömuleiðis aðlagað sig Costco.

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ, segir að áhrifin af …
Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ, segir að áhrifin af komu Costco á verðlag hafi verið minni en hún hafði vonast til. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að það sé þó nær ógjörningur að greina það í sundur hver hin umtöluðu Costco-áhrif séu í raun á verðlagið, enda spili þar fjölmargir aðrir þættir inn í þróun verðlags.

„Maður hugsar alltaf, hvernig væri verðlagið í dag ef að Costco hefði ekki komið?“ segir Auður, en við því eru fá svör.

Hún segir þó klárt að Costco hafi haft áhrif á bensínmarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, en þar er Costco að jafnaði að selja bensínlítrann á 30 kr. lægra verði en aðrir söluaðilar, þó að Atlantsolía hafi reyndar svarað samkeppninni á Garðabæjarsvæðinu með því að lækka verð sitt verulega á sjálfsafgreiðslustöð sinni við Kaplakrika, en þar kostar lítrinn í dag rúmar 211 krónur.

Of mikið plast fældi Breka frá

En það er margt annað sem skiptir neytendur máli annað en lágt vöruverð. Breki Karlsson segir að hann hafi í upphafi keypt sér kort í Costco en svo verið í þeim hópi sem ekki endurnýjaði aðild sína.

Ástæðan var tvíþætt. Í fyrsta lagi segist Breki vera að reyna að draga úr ferðalögum sínum, en hann býr á höfuðborgarsvæðinu, fjarri Costco.

„Ég reyni að versla bara í heimabyggð,“ segir Breki og bætir því við að hin ástæðan hafi verið „gegndarlaus plastnotkun“ í versluninni sem hafi hreinlega farið í taugarnar á honum.

„Það er alveg ótrúlega mikið plast sem fellur til af öllu og mér hugnaðist ekki.“

Markvert meira en annars staðar?

„Mér fannst það, ég skynjaði það. Jafnvel þótt að þeir væru ekki með plastpoka, þá var eiginlega öllu pakkað inn í plast sem hægt var að fá þarna, þannig að það var svona kannski helst það sem vann gegn minni upplifun af því að fara þangað,“ segir Breki.

Tvö ár verða á morgun liðin frá því Costco opnaði …
Tvö ár verða á morgun liðin frá því Costco opnaði dyr sínar í Kauptúni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is