Fólk vill meira af amerískum vörum

Engilbert Arnar fyrir framan Costco.
Engilbert Arnar fyrir framan Costco. mbl.is/Hari

Fáir Íslendingar hafa verið ánægðari með verslunina Costco, frá því að hún opnaði dyr sínar í Kauptúni í Garðabæ á þessum degi fyrir tveimur árum, en Engilbert Arnar Friðþjófsson. Færslur hans í Facebook-hópi, sem snerust alfarið um vöruframboð og verð í Costco, vöktu mikla athygli eftir að verslunin opnaði og Engilbert er enn mikill aðdáandi bandaríska verslunarrisans.

Í dag heldur hann úti sínum eigin Facebook-hópi, Costco – Gleði, en þar eru yfir 34 þúsund aðilar og virk umræða um vöruframboð verslunarinnar á sér stað. 

Engilbert er því með puttann á púlsinum hvað varðar Costco og var alveg til í að fara aðeins yfir hlutina þegar að blaðamaður hringdi í hann, á tveggja ára afmæli verslunarinnar hér á landi.

Telur að Costco sé að finna sig á íslenska markaðnum

„Undanfarið eru þeir búnir að vera dálítið að dala með að koma með nýjar vörur,“ segir Engilbert og segir að verslunin mætti koma með „meira af spennandi vörum“ og nefnir sérstaklega að sælgætisdeildin mætti vera betri.

„Mikið mun betri myndi ég segja. Hún er bara alls ekki nógu góð,“ segir Engilbert og bætir við að hann viti til þess að margir séu sammála sér um það.

„Það sem fólk vill, númer 1, er að fá inn amerískar vörur. Það er það sem Costco-gleðigrúbban kallar á. Fólk vill fá inn Hershey‘s og fleiri tegundir af M&M. Costco úti er víst með gríðarlega flott úrval af sælgæti fyrir sælgætisgrísi. Fólki finnst vanta meiri fríhafnarfílíng í þetta, nammideildina hjá þeim,“ segir Engilbert.

„Það var þannig að þau opnuðu með rosalega miklum krafti og þau komu með mikið af flottum vörum og síðan hefur þetta róast aðeins hjá þeim. Ég held að þau séu bara að reyna að finna sig einhvern veginn á markaðnum. Hvað þeir ætli að vera með hérna og selja hérna,“ en Engilbert segir að hann telji Costco „klárlega komið til að vera“ á Íslandi.

„Stærsti kosturinn við Costco er eldsneytið og þeir hafa veitt öðrum gríðarlega samkeppni á eldsneytismarkaði, sem hjálpar klárlega fólkinu, bara mjög mikið,“ segir Engilbert, sem nefnir einnig að honum þyki „vera öðruvísi stemning“ í Costco en í öðrum verslunum, þegar hann fer.

Og verslar hann þá aðallega í Costco?

„Nei, ég segi það nú ekki. Maður fer líka í Bónus og Krónuna, reyndar aðallega þangað,“ segir Engilbert.

mbl.is