Snýst í norðanátt og kólnar

Norðanátt verður ráðandi fram á uppstigningardag. Svona er hitaspáin fyrir …
Norðanátt verður ráðandi fram á uppstigningardag. Svona er hitaspáin fyrir landið á þriðjudag kl. 12 að hádegi. Kort/Veðurstofa Íslands

Rólegheitaveður verður á landinu í dag og víða bjart fyrir norðan, en skýjað og stöku skúrir sunnan- og austantil. Það mun þó létta til við Faxaflóa eftir hádegi. Hiti verður 8-15 stig, hlýjast á Vesturlandi, en mun svalara með austurströndinni.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að á morgun snúist í norðanátt og þá kólni í veðri og að búist sé við skúrum eða jafnvel slydduél norðaustantil og skúraleiðingum á Suðausturlandi. Að öðru leyti verður úrkomulítið.

„Lítur út fyrir að svöl norðanáttin haldi velli fram á uppstigningardag, en þá ætti aftur að lægja og hlýna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Norðlæg átt, 5-13 m/s. Smá skúrir á N-verðu landinu, jafn vel slydduél eystra og hiti 1 til 6 stig, en bjartviðri SV-til og hiti að 14 stigum. 

Á þriðjudag:
Norðan 8-15 m/s, hvassast á annesjum A-til. Dálítil slydda NA-lands, en skýjað og þurrt að kalla NV-til. Bjartviðri sunnan heiða, en líkur á skúrum allra syðst. Hiti frá frostmarki í innsveitum NA-til, upp í 10 stig syðra. 

Á miðvikudag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s og skúrir eða él NA-til, en annars mun hægara og bjart með köflum og áfram fremur svalt í veðri. 

Á fimmtudag (uppstigningardagur):
Norðlæg átt og stöku skúrir A-ast, en víða bjartviðri annars staðar og heldur hlýnandi veður. 

Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir hæga vinda, þurrt og yfirleitt milt veður.

Veðrið á mbl.is

mbl.is