Skjalfest samstarf stjórnvalda og fyrirtækja um loftslagsmál

Samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir stofnaður. …
Samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir stofnaður. Katrín Jakobsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skrifað var undir stofnun samstarfsvettvangs stjórnvalda og fjölda stórra aðila í atvinnulífinu um samstarf í loftslagsmálum. „Þetta þýðir að það er kominn formlegur vettvangur fyrir samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið; Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, auk fjölda annarra fyrirtækja standa að samstarfsvettvangnum. Markmiðið er að bæta árangur í loftslagsmálum en jafnframt að miðla árangri Íslands í þeim efnum á alþjóðavettvangi.

Fjöldi fyrirtækja opinberra og einkarekinna skrifaði undir stofnun samráðsvettvangsins.
Fjöldi fyrirtækja opinberra og einkarekinna skrifaði undir stofnun samráðsvettvangsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stjórnvöld og atvinnulíf ætla að vinna saman að þessum málum“ segir Katrín. Þetta sé fyrsta skrefið í þá átt og hún telur að þetta muni leiða til aukinna aðgerða í þessu málum og að lokum færa okkur nær því að kolefnisjafna Ísland fyrir 2040.

„Við erum annars vegar að horfa til þess hvernig við getum miðlað grænum lausnum og hugviti sem hefur reynst okkur vel við að ná árangrinum sem við höfum náð hér heima og hins vegar að atvinnulíf og stjórnvöld sammælast um markmið um kolefnislaust Ísland 2040 og ætli að vinna saman að aðgerðum því eins og ég hef sagt verður því ekki náð án þátttöku atvinnulífs,“ segir Katrín. 

„Nú hafa stjórnvöld lagt fram sína áætlun. Fyrstu skrefin í henni eru orkuskipti í bæði bílasamgöngum og líka hafnarekstri og slíku, og svo er einnig kolefnisbinding. Það er því mjög mikilvægt að nú komi atvinnulífið inn í þessar aðgerðir og síðan tökum við höndum saman um næstu áætlun,“ segir Katrín.

Er þetta nóg til þess að verða kolefnishlutlaus fyrir 2040?

Katrín segir spurninguna ekki hvort þetta sé nóg, því að augljóslega verði engin ein aðgerð nóg ein og sér. „Mín einbeitta sýn í þessu máli er að stjórnvöld þurfa að beita sér í þessu máli ásamt atvinnulífinu,“ segir Katrín. „Það er alveg ljóst að þær aðgerðir einar og sér munu ekki nægja en á meðan við festumst í spurningunni um hvað er nóg, þá gerum við ekki neitt,“ segir Katrín.

Einstakar greinar innan atvinnulífsins hafa verið að taka vel við sér, segir Katrín, eins og sjávarútvegurinn þar sem dregið hefur úr losun um 40% frá 1990. Þá hafi einstaka greinar í landbúnaðinum verið að koma fram með metnaðarfullar áætlanir. „Á nokkuð skömmum tíma hefur atvinnulífið að vera að stíga fram og segjast vera tilbúin að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Katrín.

Samtök iðnaðarins spila stórt hlutverk í stofnun samningsins. Í miðjunni …
Samtök iðnaðarins spila stórt hlutverk í stofnun samningsins. Í miðjunni er framkvæmdastjóri þeirra, Sigurður Hannesson, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á 21. öldinni erum við ekki bara að horfa á einfaldan hagvaxtarmælikvarða heldur þurfum við að hafa fjölbreyttari mælikvarða í huga. Auðvitað erum við alltaf líka að miða við hagvöxt en við þurfum að hugsa þetta út frá jafnvægi samfélags og umhverfis,“ segir Katrín jafnframt.

Loks segir Katrín að fulltrúar ólíkra flokka séu sammála um þessi markmið. „Í loftslagsmálum hefur verið mjög gott samstarf enda lykilatriði í stjórnarsáttmálanum,“ segir hún.

Eru Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn þá á sömu línu í umhverfismálum?

„Það er bara gott,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert