„Ég bara skil þetta ekki“

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segist ekki skilja að hann hafi …
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segist ekki skilja að hann hafi ekki verið metinn hæfastur umsækjenda um starfið sem hann hefur sinnt síðustu fimm ár. mbl.is/Hanna

„Það kom mér mest á óvart að vera ekki talinn hæfastur, með reynslu og þekkingu mína af starfinu. Ég er búinn að biðja um rökstuðning og fæ hann,“ segir Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu í samtali við mbl.is.

Þórólfur sóttist eftir því að halda áfram sem forstjóri Samgöngustofu, en í dag var það opinberað að Jón Gunnar Jónsson hefði verið skipaður forstjóri eftir að hafa verið metinn hæfastur af þeim 23 umsækjendum sem sóttu um starfið.

Þórólfur er undrandi á þessari niðurstöðu og hefur sem áður segir óskað eftir rökstuðningi frá hæfnisnefnd vegna ákvörðunarinnar. Hann segir starfsfólk hafa verið slegið er hann færði þeim tíðindin í dag.

„Það er ekki orðum aukið þó ég segi það, það var bara mjög slegið. Ég hafði fengið mjög mikinn stuðning hjá starfsfólkinu til að sækjast eftir stöðunni og barðist fyrir henni, sérstaklega með hag stofnunarinnar í huga því það hefur gengið mjög vel þessi fimm ár, við að sameina þessar stofnanir,“ segir Þórólfur en hann tók við starfi sínu árið 2014 þegar byrjað var að sameina Siglingastofnun, Flugmálastjórn og Umferðarstofu undir hatt Samgöngustofu.

„Ég tók við verkinu og það hefur gengið mjög vel, allir vísar líta vel út, vinnustaðagreiningar alltaf innan fjárheimilda, forkönnun Ríkisendurskoðunar athugasemdalaus og alltaf verið að fækka yfirmönnum. Svo ég bara skil þetta ekki,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert