„Til hamingju, í dag fékk ég háa sekt“

Af Instagram-reikningi Alexanders.
Af Instagram-reikningi Alexanders. Instagram/sashatikhomirov

Maðurinn sem ber ábyrgð á utanvegaakstrinum skammt frá jarðböðunum við Mývatn í gær er fræg rússnesk samfélagsmiðlastjarna sem sérhæfir sig í ljósmyndun og myndbandsupptökum á ferðalögum sínum um heiminn ásamt léttklæddum konum.

Alexander Tikhomirov deildi mynd af sér á Instagram, þar sem rúmlega 318 þúsund manns fylgjast með honum, þar sem hann stillir sér upp fyrir framan fastan jeppann. Af textanum sem fylgir myndinni að dæma hefur hann ekki miklar áhyggjur af sektinni sem hans bíður vegna atviksins. „Til hamingju, í dag fékk ég háa sekt,“ segir hann m.a. og bætir því við að nánari upplýsingar verði að finna í myndbandinu, en hann er vinsæl Youtube-stjarna með um 318 þúsund fylgjendur.

Í umfjöllun um Tikhomirov á fréttamiðlinum Slavorium segir að hann hafi gert garðinn frægan með ljósmyndum sínum af léttklæddum konum fljótlega eftir að hann fór að einbeita sér að ljósmyndun árið 2012.

Þar segir einnig að Thikomirov eigi engar veraldlegar eignir nema myndavélina sína og búnað tengdan henni, en hann hefur lífsviðurværi sitt af því að sýna frá ferðalögum sínum um heiminn, ásamt fegurstu konum Rússlands og Úkraínu.

Tikhomirov hefur verið boðaður á lögreglustöðina á Akureyri í dag þar sem mál hans verður uppgert. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra mun sektin að öllum líkindum hlaupa á hundruðum þúsunda króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert