Má búast við slyddu og snjókoma á fjallvegum

Ökumenn á fjallvegum á Norðaustur- og Austurlandi mega búast við …
Ökumenn á fjallvegum á Norðaustur- og Austurlandi mega búast við slyddu eða snjókomu í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búast má við norðlægri átt, 3-10 m/s, en allt að 10-15 m/s með austurströnd landsins í dag. Yfirleitt verður bjartviðri, en þykknar upp á Norðausturlandi og fer að rigna austast. Á Norðvesturlandi gæti þykknað upp í kvöld og rignt í nótt. Styttir að mestu upp fyrir norðan þegar líður á morgundaginn, en áfram bjart sunnan- og vestanlands. Hiti verður svipaður og síðustu daga, frá 4°C á Norðausturlandi upp í 16°C á Suðurlandi yfir daginn. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð 10-15°C í dag.

Á fjallvegum á Norðausturlandi og Austurlandi má búast við slyddu og jafnvel snjókomu sem getur skapað varhugaverðar aðstæður fyrir ökumenn samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á sunnudaginn er spáð skýjuðu veðri og dálítilli rigningu um landið norðaustanvert og á annesjum á Norðvesturlandi. Þurrt að mestu síðdegis og hiti 3-9°C en allt að 10-16°C að deginum.

Á mánudeginum er spáð hægri breytilegri átt eða hafgolu, bjart á köflum og hiti á bilinu 10-18°C að deginum. Skýjað að mestu og svalara á austanverðu landinu.

Eftir helgi er svo spáð hlýnandi veðri, en enn er töluverð óvissa í spám um hvernig veðrið muni þróast og hversu hlýtt verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert