Selur Spiderman á eina og hálfa milljón

Kannski eru þessir myndasögusafnarar og vilja kaupa eitt eintak.
Kannski eru þessir myndasögusafnarar og vilja kaupa eitt eintak. AFP

Breskur maður á sjötugsaldri hyggst selja allt teiknimyndasögusafnið sem hann hefur safnað alla ævi. Það væri vart í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að blöðin eru 36 þúsund talsins og eru metin á um 55 milljónir króna eða 350 þúsund pund. BBC greinir frá. 

Martin Morris hefur safnað blöðunum frá fimm ára aldri. Verðmætasta blaðið er frá árinu 1962 og er fyrsta blaðið með ofurhetjunni Spiderman. Það eitt og sér er metið á rúma eina og hálfa milljón króna.  

Morris hyggst selja allt safnið í einu lagi á eBay. Ástæðan er sú að hann fékk nýlega hjartaáfall og ætlar að verja ágóðanum í að ferðast um heiminn. 

Safnarar og grúskarar geta glaðst ef þeir hafa hug á að fjárfesta í einu eintaki eða svo. Einnig geta þeir hreinlega fetað í hans fótspor og létt á veraldlegum eigum sínum og ferðast fyrir ágóðann. 

mbl.is