Hvatti afmælisgesti til að gefa notaðar gjafir

Benjamín Tumi var ánægður með tveggja ára afmælisdaginn sinn.
Benjamín Tumi var ánægður með tveggja ára afmælisdaginn sinn. Ljósmynd/Daðey Albertsdóttir

Daðey Albertsdóttir sálfræðinemi hélt umhverfisvæna afmælisveislu fyrir tveggja ára son sinn, Benjamín Tuma, síðustu helgi, þar sem hún og eiginmaður hennar, Tómas Guðmundsson, lögðu til við veislugesti að gefa honum notaðar gjafir af heimili sínu eða úr nytjamörkuðum í stað þess að kaupa nýjar gjafir. Daðey segir að ákvörðunin hafi verið tekin af umhverfissjónarmiðum og sem tilraun til að minnka sóun.

Hún segir umræðuna um notaðar gjafir hafa sprottið upp í vinahópi hennar eftir tilkomu Barnaloppunar, verslunar sem selur vel með farnar, endurnýttar barnavörur.

Útgjöld fyrir umhverfið

„Margir eru á þeirri skoðun að það sé ekkert mál að fá eitthvað sem er notað en finnst dálítið óþægilegt að gefa eitthvað sem er notað, því þá líður fólki stundum eins og það sé nískt,“ segir Daðey. „Við förum í mörg barnaafmæli á hverju ári og þetta eru alltaf einhver útgjöld, ekki endilega bara vegna peningalega þáttarins heldur eru þetta útgjöld fyrir umhverfið. Það eru til svo ótrúlega mikið af leikföngum, flest barnaheimili eru yfirfull af dóti og börnin leika sér ekki með helminginn af þessu,“ segir Daðey. Hún segist hafa tekið eftir því að fólk sé farið að hugsa meira um að minnka sóun í kringum hana. Til að mynda margir vinir hennar séu mjög meðvitaðir um umhverfið og að svokallaður „zero waste“-lífstíll, sem snýst um að henda sem minnstu í almennt rusl, sé áberandi í umræðum á vinnustaðnum hennar.

Daðey segir afmælið hafa gengið frábærlega og að fólk hafi almennt tekið þátt í að gefa endurnýttar gjafir. „Í vinahópnum okkar höfðu margir orð á því hvað þetta væri frábær hugmynd. Þetta var líka frábært fyrir börnin þeirra að fá að fara inn í herbergi og æfa sig í að gefa eitthvað áfram sem þau ættu. Það er góð æfing í að deila með öðrum. Svo fóru sumir í Barnaloppuna og keyptu eitthvað þar og sumir gáfu bara pening,“ segir Daðey.

Munur milli kynslóða

„Svo tókum við eftir því, þegar við vorum að ganga frá eftir afmælið að það var nánast enginn gjafapappír eða kassar utan af dóti af því að þetta var náttúrulega ekki úr búðinni. Fólk var frekar að gefa í gjafapokum sem við getum síðan notað áfram.“

Daðey bætir við hún hafi tekið eftir augljósum kynslóðamun milli fólks. „Það voru kannski helst ömmur og afar sem gáfu eitthvað nýtt úr búð. Ég reyndi samt að ýja að þessu við þau. Ég sagði ömmunni að okkur langaði í dúkku fyrir Benjamín og að það væru fullt af dúkkum til í Barnaloppunni,“ segir Daðey. „Svo kom náttúrulega bara ný dúkka úr kassanum. Ég held að þetta sé líka það að foreldrar okkar upplifðu kannski meiri skort í þeirra æsku. Þá var kannski önnur meining í því að gefa eitthvað notað. Manni fannst kannski leiðinlegt að vera alltaf í notuðum fötum á þeim tíma þegar fólk átti minni pening. Það var einhver stimpill á því. En það væri frábært ef við gætum tekið þann stimpil í burtu og gert það að samfélagslegu „normi“ að allir deili hlutunum bara áfram.“

Afmælisgestir nutu veðurblíðunnar.
Afmælisgestir nutu veðurblíðunnar. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert