„Málið er bara ekki lengur pólitískt“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Málið er bara ekki lengur pólitískt. Það er bara í þeim farvegi sem það var sett út frá verkferli sem var lagt fyrir borgarráð í vor,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, um rannsókn sem fer nú fram á framferði Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins gagnvart embættismanni hjá Reykjavíkurborg.

Þórdís Lóa er að vísa til sérstaks verkferils sem lagður var fram í borgarráði 7. maí 2019 af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, verkferils sem er sagður til bráðabirgða. Þeim verkferli er sérstaklega ætlað að taka til „kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.“

Og verkferillinn var samþykktur sem gildur bráðabirgðaverkferill og skömmu síðar barst kvörtun af þessari gerð til eineltis- og áreitniteymis ráðhússins. Sú var af hálfu Helgu Bjargar Ragnarsdóttur og beindist að framgöngu Vigdísar Hauksdóttur. Erindið voru 100 blaðsíður.

Málið úr höndum borgarráðs

„Nú er þetta alveg úr höndum borgarráðs,“ segir Þórdís Lóa við mbl.is en Vigdís Hauksdóttir tók engu að síður til máls um efnið á fundi ráðsins í morgun. Þar lagði hún fram bókun, að sögn Þórdísar Lóu í formi fyrirspurnar, og bókunina hefur Vigdís sjálf birt á Facebook. Hana má lesa hér að neðan.

„Verkferillinn segir til um hvað gerist næst í þessu máli,“ segir Þórdís Lóa. Vigdísi hafi borist bréfið og nú verði sett á fót nefnd, allt eftir ákvæðum verkferilsins, sem kanni málið. Ekki segir þó í verkferlinum hversu langan tíma svona rannsókn kann að taka en þar segir um lyktir mála að sá óháði og sérfróði aðili sem fenginn er til að kanna málið skuli kynna niðurstöðu athugunar sinnar fyrir hlutaðeigandi starfsmanni/starfsmönnum og kjörnum fulltrúa að henni lokinni ásamt tillögum að lausn eftir því sem við á. „Jafnframt skal miðlægt eineltis- og áreitniteymi upplýst um niðurstöðu málsins. Þegar niðurstaða hinnar óháðu könnunar hefur verið kynnt aðilum sem og eftir atvikum tillögur að lausn málsins telst meðferð þess lokið af hálfu Reykjavíkurborgar.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs segir eineltisásakanir ekki á borði …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs segir eineltisásakanir ekki á borði borgarráðs heldur komnar í ópólitískan farveg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessi sérstaki verkferill var stofnaður, að því er segir í greinargerð hans, til þess að mæta viðhorfum sem birtust í áliti siðanefndar Sambands sveitarfélaga. Þar var talið æskilegast að verkferillinn ætti sér farveg hjá miðlægri nefnd og „ekki farin sú leið sem lögð er til í áliti siðanefndar Sambands sveitarfélaga að ætla borgarstjóra eða formanni borgarráðs hlutverk í þessu ferli heldur er miðlægu eineltis- og áreitniteymi falið að leggja mat á fyrirliggjandi kvörtun og koma því að undangenginni ákveðinni málsmeðferð til frekari könnunar hjá utanaðkomandi aðila.“

Fundur borgarráðs góður

Að öðru leyti stóð fundur borgarráðs frá morgni fram eftir degi í um fimm og hálfan tíma. „Þetta var frábær fundur,“ segir Þórdís Lóa, „við ræddum ansi mörg stór mál.“ Þar á meðal hafi verið skipulag á Höfða í tengslum við borgarlínu og niðurstöður stytingar vinnuvikunnar innan Reykjavíkurborgar.

Bókun Vigdísar

Í bókun sinni á fundinum í morgun kveðst Vigdís túlka virkjun verkferilsins á þá leið að hann hljóti héðan af að ganga í báðar áttir, það er, ekki að aðeins sé embættismönnum gert með honum kleift að kvarta undan kjörnum fulltrúum, heldur einnig að kjörnum fulltrúum sé með honum kleift að kvarta undan embættismönnum:

"Fulltrúi Miðflokksins í borgarráði fagnar því að nú sé formlega búið að virkja hinn svokallaða bráðabirgðaverkferil/rannsóknarrétt ráðhússins vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins í ræðustól í borgarstjórn. Á fundi …
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins í ræðustól í borgarstjórn. Á fundi borgarráðs í morgun lagði hún fram bókun um ásakanir starfsmanns borgarinnar á hendur sér. mbl.is/Hari

Það er staðfest tæpum sólarhring eftir að nýjar siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar á hitafund borgarstjórnar. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir því að bæði siðareglur og skráning fjárhagslegra hagsmuna nái bæði yfir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn borgarinnar og séu samþykktar samhliða.

Því hefur ávallt verið hafnað af fyrrverandi forseta borgarstjórnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur og borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni. Nú hefur komið á daginn hvers vegna þessum réttmætu óskum minnihlutans var hafnað.

Með bréfi dags. 12. júní, sem undirritaðri barst í gær með ábyrgðarpósti undirrituðu af eineltis- og áreitnisteymi Ráðhúss/miðlægrar stjórnsýslu hefur einstakt fordæmi verið sett. Undirrituð lítur því svo á að nú hafi rétturinn til kvartanna verið virkjaður í báðar áttir og sé því orðinn gagnkvæmur á þann hátt að kjörnir fulltrúar hafi því líka feril til að kvarta undan framkomu og háttsemi embættismanna í sinn garð."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert