Uppfyllum ekki skyldur okkar

AFP

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur undanfarin ár birt skýrslu um mansal og er þar sérstaklega gagnrýnt að ekki hafi verið ákært fyrir nein mansalsbrot hér síðan 2010 ásamt því að auka þurfi sérþekkingu og þjálfun í rannsókn mála og öflun sönnunargagna. Fjallað er um þetta á vef dómsmálaráðuneytisins í gær.

Í skýrslunni er fjallað um stöðu mansalsmála í ríkjum heimsins og aðgerðir stjórnvalda einstakra ríkja til að spyrna gegn mansali. Skýrslan byggir á einhliða úttekt bandarískra stjórnvalda á öðrum ríkjum þar sem leitað er upplýsinga hjá félagasamtökum, einstaklingum, internetinu ásamt svörum frá tilteknum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld fá skýrsluna ekki til umsagnar áður en hún er birt.

Ríkin eru flokkuð í þrjá flokka og er Ísland nú í 2. flokki, þriðja árið í röð, en var í fyrsta flokki á tímabilinu 2012-2016. Bandaríska utanríkisráðuneytið telur íslensk stjórnvöld þannig ekki lengur uppfylla að öllu leyti kröfur þeirra til útrýmingar á mansali í heiminum en hafi þó sýnt verulega viðleitni til að mæta þeim.

„Dómsmálaráðherra birti í mars síðastliðnum áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu sem byggja á tveimur fyrri aðgerðaráætlunum ríkisstjórnarinnar í mansalsmálum. Þá eru áherslurnar í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem Ísland fullgilti í febrúar 2012. Þá var við gerð áhersluskjalsins tekið mið af nýrri skýrslu GRETA, sérfræðinganefndar Evrópuráðsins í mansalsmálum, sem unnin var í kjölfar úttektar  nefndarinnar á Íslandi 2018. Einnig var tekið mið af athugasemdum í fyrri skýrslu bandarískra stjórnvalda um mansal.

Dómsmálaráðherra skipar einnig samráðshóp sem hefur það hlutverk að fylgja eftir áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu og huga að frekari stefnumótun eftir því sem þörf krefur. Þar koma saman fulltrúar dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis, félags- og barnamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis ásamt öðrum aðilum sem hafa innsýn, þekkingu og reynslu á þessu sviði, t.d. samtök launþega og samtök atvinnurekenda. Einnig hafa íslensk stjórnvöld leitað liðsinnis Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) á þessu sviði til að efla þekkingu í málaflokknum,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Leggja til að stjórnvöld fari í auglýsingaherferð

Bandarísk stjórnvöld gagnrýna sérstaklega að ekki hafi verið ákært fyrir nein mansalsbrot síðan 2010 ásamt því að auka þurfi sérþekkingu og þjálfun í rannsókn mála og öflun sönnunargagna. Þá þurfi að setja á laggirnar sérstakt verklag til að betur megi bera kennsl á þolendur. Einnig er lagt til að ráðist verði í auglýsingaherferð sem beinist sérstaklega að viðkvæmum hópum og atvinnugreinum þar sem mansal gæti þrifist.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt kapp á að bæta meðferð mansalsmála hér á landi, auka þekkingu á eðli og einkennum brotanna sem og að vernda þolendur og mæta þörfum þeirra. Nýverið voru gerðar breytingar á löggjöf sem gera meintum þolendum mansals kleift að fá atvinnuleyfi þegar þeir hafa þegar fengið dvalarleyfi og fjárveitingar auknar til frjálsra félagasamtaka sem aðstoða meinta þolendur mansals. Regluleg fræðsla fer einnig fram innan kerfisins en í nóvember á síðasta ári stóð dómsmálaráðuneytið í samvinnu við sendiráð Bandaríkjanna fyrir fræðslu um aðgerðir gegn mansali fyrir stofnanir sem heyra undir ráðuneytið, auk félagasamtaka sem láta sig mansalsmál varða. Þá rekur íslenska ríkið tvær miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis í Reykjavík og á Akureyri þar sem þjónusta og aðstoð er veitt til þolenda mansals. 

„Íslensk stjórnvöld hafa stigið þýðingarmikil skref í baráttunni gegn mansali hér á landi með breytingu á löggjöf, auknum fjárveitingum og áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Skýrsla bandarískra stjórnvalda er innlegg í þetta viðvarandi verkefni hverrar þjóðar, sem fyrr, ásamt athugasemdum sérfræðinefndar Evrópuráðsins sem vinnur með íslenskum stjórnvöldum að bættri meðferð mansalsmála. Mikil umræða hefur farið fram hér á landi að undanförnu um mansalsmál og félagslegt undirboð á vinnumarkaði sem ýtt hefur úr vör vitundarvakningu á meðal almennings en brýnt er að við séum öll meðvituð um brot af þessu tagi svo fleiri verði þeirra varir séu þau við lýði. Það er aldrei ásættanlegt að einstaklingar séu sviptir frelsi sínu með þvingunum og nauðung og íslensk stjórnvöld munu hér eftir sem endranær vinna ötullega að því að koma í veg fyrir slík brot og aðstoða þá sem fyrir þeim kunna að verða,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert