Skólabörnum ekið yfir Sæbraut

Fyrstu íbúðirnar í Trilluvogi verða afhentar í ágúst. Til stendur …
Fyrstu íbúðirnar í Trilluvogi verða afhentar í ágúst. Til stendur að keyra börn úr hverfinu í skóla þar sem ekki er göngubrú yfir Sæbraut og ekki er byrjað á byggingu grunnskóla í Vogabyggð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi, Vogabyggð, verða afhentar í ágúst en um er að ræða yfir 40 íbúðir í fjölbýlishúsum og raðhús. Enginn skóli er kominn í hverfið en gert er ráð fyrir 1.100-1.300 íbúðum í hverfinu. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg verður boðið upp á skólaakstur í Vogaskóla þar til gönguleið hefur verið tryggð.

Vogaskóli er sá skóli sem er næst Vogabyggð. Til þess …
Vogaskóli er sá skóli sem er næst Vogabyggð. Til þess að komast þangað þurfa börn í Vogabyggð að fara yfir Sæbraut. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn göngubrú er yfir Sæbraut en til stóð að reisa slíka brú í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð þegar hún var kynnt árið 2015. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í febrúar 2017 voru kynnt  frumdrög að göngubrú eða undirgöngum við Sæbraut við Snekkjuvog. 

„Göngubrú yfir Sæbraut við Tranavog og Snekkjuvog eflir vistvænar samgöngur milli hverfanna og eykur öryggi gangandi vegfarenda,“ segir meðal annars í kynningargögnum Reykjavíkurborgar um Vogabyggð.

Þar segir að auk umferðarljósa við Knarravog og Kleppsmýrarveg er gert ráð fyrir göngubrú yfir Sæbraut. Göngubrúin tengir Tranavog og Snekkjuvog, eflir vistvænar samgöngur milli hverfanna og eykur öryggi skólabarna og gangandi vegfarenda.

Mjög hefur verið fjallað um öryggi skólabarna við fjölfarnar götur í Reykjavík, þar á meðal Hringbraut undanfarin misseri. Sæbraut er ein af stofnbrautum borgarinnar. 

Ekki er óalgengt að bílar bruni yfir á rauðu ljósi …
Ekki er óalgengt að bílar bruni yfir á rauðu ljósi á gatnamótum Sæbrautar og Súðarvogs. mbl.is/Styrmir Kári

Í Trilluvogi er verið að ljúka við 6 hæða fjölbýlishús með 40 íbúðum og fimm raðhús á þremur hæðum. Samkvæmt fasteignavef mbl.is er verð íbúðanna frá 34,9 milljónum króna og verð raðhúsanna frá 89,9 milljónum. Áformað er að afhenda íbúðirnar í ágúst og raðhúsin í september.

Upplýsingar um Trilluvog

Efnt var til hugmyndasamkeppni um skipulag Vogabyggðar á árinu 2013 með Reykjavíkurborg og Hömlum. Líkt og fram kom í grein Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu fyrir 10 mánuðum er Vogabyggðinni skipt í 5 skipulagsreiti. Búið er að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir svæði 1 og 2 auk þess sem deiliskipulagstillaga fyrir svæði 5 er í auglýsingu. Á svæði 3 hefur ekki náðst samstaða við núverandi lóðarhafa um uppbyggingu þess. Á þessu svæði eru flestir lóðarhafar. Svæði 4 er í biðstöðu meðal annars vegna þess að fyrirhuguð borgarlína mun mögulega liggja þar um.

Hér er hægt að skoða skiptingu Vogabyggðar

Á fundi borgarráðs í október var samþykkt breyting á samningsramma Reykjavíkurborgar í viðræðum við lóðarhafa í hluta Vogabyggðar 3 þar sem ekki hefur tekist að fá eigendur 70% nýju byggingarmagni á viðkomandi svæði til að skuldbinda sig til þess að ráðast í uppbyggingu á lóðum sínum.

Séð yfir Súðarvog sem tilheyrir Vogabyggð 3.
Séð yfir Súðarvog sem tilheyrir Vogabyggð 3. mbl.is/Arnþór Birkisson

Helstu breytingarnar á samningsrammanum er að heimiluð verður nokkur aukning á byggingarmagni og innviðagreiðslur miðist við það byggingarmagn sem samþykkt verður af byggingarfulltrúa. Að þessu svæði verði skipt upp í 2-3 deiliskipulagsreitir og felld út ákvæði um leiguíbúðir og stúdentaíbúðir enda lóðirnar það litlar að hvergi verða reistar 20 íbúðir eða fleiri á þeim. Miðað er við að þetta nái til lóða við Súðarvog, Tranavog og Kænuvog en ekki aðrar götur í Vogabyggð 3. 

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg frá því á föstudag er verið  að vinna að breytingum á deiliskipulagshugmyndum að Vogabyggð 3. Þegar þær liggja fyrir í haust er áformað að kynna lóðarhöfum á svæðinu uppbyggingarmöguleika á lóðum þeirra og samstarfssamning við Reykjavíkurborg um uppbyggingu og breytta ásýnd hverfisins.

Gunnar Sverrir Harðarson fasteignasali hjá RE/MAX, sagði nýverið í viðtali við Morgunblaðið að miðað við áætlanir skipulagsyfirvalda stefni í að árið 2050 verði búið að fjölga heimilum á höfuðborgarsvæðinu um 50% frá því sem nú er, bæði með því að láta byggðina vaxa og dreifa úr sér, og líka með því að þétta hana,“ segir Gunnar og bendir t.d. á Heklureit, Urriðaholt, Hnoðraholt og Vogabyggð.

Miklar framkvæmdir eru í Vogabyggð 1 og 2.
Miklar framkvæmdir eru í Vogabyggð 1 og 2. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í þessum nýju íbúðahverfum, hvort sem þau eru stór eða smá, má greina nýjar áherslur í hönnun og skipulagi sem endurspegla breyttar óskir almennings. Gunnar segir Vogabyggð mjög gott dæmi um þessa þróun. Svæðið er innst við Elliðavog, steinsnar frá smábátahöfninni, og stutt í bæði Sæbraut og Vesturlandsveg, sem og alls kyns verslun og þjónustu en byggðin samt þannig staðsett að hún er í miklu návígi við náttúruna og hentar þeim sem vilja stunda heilbrigðan lífsstíl.

„Hverfið minnir um margt á Fossvoginn, er í góðu skjóli og með þægilegt veðurfar fyrir útiveru. Grunnskólinn á að rísa við smábátahöfnina og munu börnin geta gengið í skólann yfir nýja brú, án þess að fara yfir umferðargötu,“ útskýrir Gunnar. „Hollenska arkitektastofan Jvantspijker, í samvinnu við íslensku stofuna THG, var hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um nýtt deiliskipulag svæðisins og sjást þess greinilega merki í því hvernig heilnæmur lífsstíll, náttúra og byggð eru fléttuð saman, t.d. með góðum göngu- og hjólaleiðum í allar áttir.“

Skipulagssvæði Vogabyggðar er um 18,6 hektarar að flatarmáli og gert ráð fyrir 1.100-1.300 íbúðum sem samtals verða um 155.000 fermetrra að stærð, og að auki að í hverfinu verða 56.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði.

Kynning á vegum Reykjavíkurborgar frá árinu 2015

Vogabyggð 3 var til umræðu í borgarráði í fyrra 

Súðarvogur.
Súðarvogur. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert