Lokanir samsvara deild

Páll Matthíasson forstjóri segir að sumarið verði áskorun.
Páll Matthíasson forstjóri segir að sumarið verði áskorun. mbl.is/​Hari

Landspítalinn dregur meira úr starfsemi sinni í sumar en áður. Í júlímánuði og fram yfir verslunarmannahelgi eru 15-20 fleiri legurými lokuð en á sama tíma í fyrra. Helsta ástæðan er skortur á starfsfólki til afleysinga við hjúkrun sjúklinga.

Landspítalinn dregur ávallt úr starfsemi sinni yfir hásumarið. Þá dregur nokkuð úr reglulegri starfsemi, svo sem skipulögðum aðgerðum og meðferðum, en einnig vegur skortur á starfsfólki við hjúkrun þungt.

Sumarið verður áskorun

Í nýjasta föstudagspistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, sem birtur er á vef spítalans kemur fram að flest bráðalegurými eru á skurðlækningasviði, flæðisviði og lyflækningasviði. Gert sé ráð fyrir færri opnum legurýmum en áður á lyflækningasviði en skurðlækningasvið og flæðisvið muni bæta við sumaropnun.

„Heildarniðurstaðan er sú að nokkuð færri rými verða opin hjá okkur í sumar í 2-3 vikur um hásumarið og ræður þar mannekla, fremur en annað. Sumarið verður því áskorun í þessu tilliti, nú sem áður,“ skrifar Páll í pistli sínum.

Vandræði í styttri tíma

Samkvæmt upplýsingum frá Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmanni forstjóra Landspítalans, eru fleiri legurými lokuð í júlí og fram í byrjun ágúst í ár en á síðasta sumri. Hins vegar eru færri rými lokuð fyrir og eftir þann tíma en árið 2018. Anna Sigrún segir að lokanirnar séu meiri yfir hásumarið í ár en standi yfir í styttri tíma en í fyrra.

Þegar litið er á heildina eru 536 til 544 rými opin á deildum sem opnar eru alla daga vikunnar, frá 8. júlí og fram yfir verslunarmannahelgi. Er það 18-20 rýmum færra en á sama tímabili fyrir ári.

Lokanirnar dreifast ekki jafnt yfir. Þannig dregur mest úr starfsemi á stórum deildum eins og á lyflækningasviði. Anna Sigrún segir að hægt hafi verið að draga úr afleiðingum þess með breyttu verklagi og með því að halda fleiri rúmum í notkun á skurðlækningasviði og flæðisviði. Hún bendir á að þetta sé sérstaklega mikilvægt á flæðisviði þar sem öldrunarlækningadeildir spítalans eru. Ekki þurfi þá að senda sjúklinga þaðan á aðrar deildir spítalans í eins miklum mæli og annars hefði verið. Þá tekur hún fram að gott samstarf sé við sjúkrahúsin í nágrannabyggðum. Þau reyni eftir bestu getu að taka við sjúklingum frá Landspítalanum.

Enn verið að reyna

Ástæðan fyrir því að loka þarf fleiri rýmum en áður er skortur á starfsfólki við hjúkrun, eins og fram kemur í pistli forstjórans. Anna Sigrún segir að þótt gera megi ráð fyrir því að þetta verði brekka muni starfsfólk spítalans geta unnið samkvæmt þeirri áætlun sem lögð hefur verið upp. Og þau eru ekki hætt að vinna í málunum. „Við höldum áfram að reyna að halda rýmum opnum, alveg fram á síðustu stundu,“ segir Anna Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert