Vegagerðin á svig við eigin skilmála

Ákvörðun Vegagerðarinnar vegna útboðs við endurgerð Reykjavegar hefur verið felld …
Ákvörðun Vegagerðarinnar vegna útboðs við endurgerð Reykjavegar hefur verið felld úr gildi.

Ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við GT verktaka ehf. og Borgarvirki ehf. um breikkun og endurgerð Reykjavegar í Biskupstungum hefur verið felld úr gildi af kærunefnd útboðsmála. Vegagerðin hafði ákveðið að taka lægsta tilboði þrátt fyrir að fyrirtækin sem að þeim stóðu uppfylltu ekki skilmála þess þegar útboðsfresti lauk.

Fram kemur í úrskurðinum að að Vegagerðin hafi tilkynnt fyrirtækjunum uppfylltu ekki kröfur útboðsins hvað varðar fjárhagsstöðu og að yrði samið við kærenda (Þjótanda). Fyrirtækin gerðu athugasemd og fengu frest til þess að skila frekari gögnum.

Tilboði Borgarvirki og GT verktaka var á ný hafnað 31. janúar þar sem gögnin voru sögð ófullnægjandi. Fengu fyrirtækin þá tækifæri til þess að leggja fram enn frekari gögn um fjárhagsstöðu og ákvað Vegagerðin að ganga til samninga við þau.

Uppfylltu ekki skilyrði um gjaldþrot

Sagt er að fyrirtækin sem voru með lægsta tilboð hafi ekki uppfyllt skilyrði um að fimm ár yrðu að líða frá gjaldþroti fyrirtækis sem tengdist stjórnendum og helstu eigendum.

Þá segir í úrskurði kærunefndar útboðsmála að það liggi „fyrir að skilmálar hins kærða útboðs voru skýrir um að vísa bæri frá tilboði hefði fyrirtæki sem tengdist stjórnendum og helstu eigendum bjóðenda orðið gjaldþrota síðastliðinn fimm ár“.

Taldi Þjótandi ehf. að Vegagerðin hafi raskað jafnræði bjóðenda með því að vikið hafi verið frá skilmálum útboðsins. Nefndin úrskurðaði Þjótanda í hag og felldi ákvörðun Vegagerðarinnar úr gildi auk þess sem henni er gert að greiða fyrirtækinu 600 þúsund krónur vegna málskostnaðar.

Einkennileg forsaga

Fyrirtækið GT Verktakar á sér nokkra sögu, en upphaflega var fyrirtæki undir þessu heiti stofnað árið 2004. Þá dæmdi Héraðsdómur Austurlands árið 2008 starfsmannaleiguna NLC sem var í eigu GT verktaka til þess að greiða starfsmönnum sem unnu við Kárahnjúkavirkjun vangoldin laun.

Þá var nafni GT verktaka ehf. breytt í G1000 ehf. árið 2014 og var lýst gjaldþrota árið 2015. Um þetta leiti hófst sambærilegur rekstur – og hafði verið hjá G1000 ehf. (áður GT verktakar) – hjá félaginu GT Hreinsun ehf., en nafni þess félags var breytt í GT verktakar ehf. árið 2017.

Skiptum bús G1000 lauk árið 2017 og fengust 22 milljónir upp í 247 milljón króna þrot félagsins.

mbl.is