Dæmdur fyrir að sveifla barni yfir handrið

Maðurinn neitaði sök en var sakfelldur.
Maðurinn neitaði sök en var sakfelldur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að haldið syni sínum fram yfir svalahandrið á þriðju hæð og hótað að sleppa honum. 

Hann var einnig fundinn sekur fyrir að brjóta gegn valdstjórninni en hann réðist á lögregluþjón í kjölfar atviksins. Dómur í málinu var kveðinn upp 28. maí en hann var birtur í gær. 

Maðurinn neitaði sök en var þrátt fyrir það sakfelldur fyrir bæði brotin. Samkvæmt niðurstöðu geðlæknis var maðurinn metinn sakhæfur. Maðurinn er öryrki en þrátt fyrir sjúkdóm sinn „er hann sjálfbjarga og tekur þátt í uppeldi sonar síns“ að því er segir í dómnum. Þar segir ennfremur að maðurinn hafi neytt róandi og örvandi lyfja í bland við áfengi á þeim tíma þegar atvikið átti sér stað. 

Maðurinn réðst á lögregluþjón þegar lögreglan kom á þáverandi heimili mannsins í blokk á þriðju. Ákærði stangaði lög­reglu­manninn í búk­inn með þeim af­leiðing­um að hann hlaut verki og var greind­ur með grun um rif­brot. 

Atvikið átti sér stað í ágúst 2014. Héraðssaksóknari ákærði manninn í október í fyrra.

Í dómnum kemur fram að þar sem málið hafi dregist óhæfilega sé skilorðstíminn ákveðinn með hliðsjón af þeim drætti.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert