Ekki rætt við Íslendinga um Íran

Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra aðildarríkja NATO lauk í dag.
Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra aðildarríkja NATO lauk í dag. AFP

Meðal umræðuefna á fundi varnarmálaráðherra NATO í Brussel, sem lauk í dag, var meðal annars brot Rússa á kjarnorkuafvopnunarsamningnum (INF), fælingar- og varnarviðbúnaður bandalagsins, ný tækni og verkefni NATO í Afganistan, að því er fram kemur á vef NATO.

Staðan í deilu Bandaríkjanna og Íran var kynnt af hálfu varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, en var ekki formlega á dagskrá fundarins. Bað hann um stuðning aðildarríkja NATO, en nú þegar hafa bandarísk stjórnvöld meðal annars rætt við Norðmenn vegna málsins.

„Það hefur engin nálgast okkur eða beðið um aðstoð okkar í því máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is. Hann sótti fundinn fyrir hönd Íslands.

Bauð fram aðstoð vegna flugmála í Kósóvó

Á fundinum greindi Guðlaugur frá því að Ísland sé reiðubúið til þess að vera milliliður fyrir eftirlit og samstarf til að auðvelda flugsamgöngur í Kósóvó, en NATO hefur sinnt ýmsum verkefun í Kósóvó fyrir hönd Sameinuðu þjóðirnar í tvo áratugi.

Ýmis vandamál eru hvað flugmál varðar vegna deilna milli ríkja á Balkanskaga. „Við ræddum þetta þegar Stoltenberg [framkvæmdastjóra NATO] þegar hann kom til Reykjavíkur,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Um tíma gegndu íslensk flugmálayfirvöld hlutverki í sambandi við uppbyggingu á Pristina-flugvelli og það er ánægjulegt að geta boðið fram borgaralega sérþekkingu okkar á þessu sviði. Þetta styður við allt alþjóðlegt samstarf á Vestur-Balkanskaga. Við erum að leggja okkar á vogaskálarnar til þess að bæta stöðu þessa fólks,“ segir ráðherrann.

Bæta varnarviðbúnað

Fram kemur á vef NATO að unnið sé að því að uppfylla kröfu bandalagsins um að 30 orrustuskip, 30 herfylki og fleiri tugir orrustuflugvéla verða á viðbúnaðarstigi sem gerir þeim kleift að vera kallað út með 30 daga fyrirvara. Markmiðið er að viðbúnaðarstiginu verði náð um áramótin.

Þá var einnig samþykkt á fundinum ný stefna NATO er varðar geiminn sem á að stýra aðkomu NATO að málefninu.

mbl.is