Enginn ætti að verða of seinn á Hlemmi

Fólk á Hlemmi veit núna hvað klukkan slær.
Fólk á Hlemmi veit núna hvað klukkan slær. mbl.is/Eggert

„Það var alltaf vilji minn að fá klukku aftur á Hlemm,“ segir Klaus Ortlieb, eigandi Hlemmur Square. Hann hefur komið upp klukku á vegg hótelsins á Hlemmi en engin klukka hefur staðið á Hlemmtorgi síðan stoppistöðinni var breytt í mathöll.

Klaus talar um að klukka á torginu sé einfaldlega hluti af sögu svæðsins. Hann bendir á að þarna hafi verið stór klukka þegar fólk ferðaðist um Hlemm á hestum og fólk hafi alltaf vitað hvað klukkan sló.

Gamla klukkan við Hlemm.
Gamla klukkan við Hlemm. mbl.is/Þorvaldur

„Klukkan var stór hluti af Hlemmi. Ég gat ekki látið hana á sama stað en ég gat gert eitthvað,“ segir Klaus sem vildi koma með eitthvað á torgið sem tengdist sögu þess og vildi minna á hvað svæðið snýst um.

Klaus Ortlieb hóteleigandi.
Klaus Ortlieb hóteleigandi. Ljósmynd/Aðsend

Klukkunni var komið upp þar sem skilti sem á stóð „Hlemmur Square“ var áður. Það var fjarlægt í miklum stormi í febrúar í fyrra.

„Þeir sem eru á ferðinni geta séð klukkuna úr báðum áttum og ég sé að þeir sem eru á ferli líta upp á hana,“ segir Klaus. Það sé því alveg hægt að slá því föstu núna að enginn verði seinn, þó vissulega séu flestir með síma eða önnur snjalltæki á sér þá verða þau stundum rafmagnslaus.

„Þú verður ekki seinn á Hlemmi,“ segir Klaus og hlær.

Hvað slær klukkan?
Hvað slær klukkan? mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert