Ekkert unglingafyllerí í Básum

Útivistarperlan Básar í Goðalandi.
Útivistarperlan Básar í Goðalandi. mbl.is/Árni Sæberg

Von er á að allt að þúsund manns leggi leið sína í Bása í Goðalandi í dag, en þar fer fram fjölskylduhátíð fram í kvöld og mun Góss, nýstofnuð hljómsveit Sigríðar Thorlacius, Sigurðar Guðmundssonar og Guðmundar Óskars, skemmta lúnum ferðalöngum. Flestir eru þeir reyndar ókomnir á leið sinni niður í Bása, en ganga ýmist Fimmvörðuháls eða Laugaveginn í því skyni.

Fyrsta helgin í júlí var löngum stærsta ferðahelgi ársins í Básum þangað sem ungt fólk í fylleríshug stefndi, en Rúnar Hjartar, staðarhaldari í Básum, segir það liðna tíð. Síðustu ár hafi helgin verið eins og hver önnur á tjaldsvæðinu.

Aftur orðin með stærri helgum ársins

Nú sé hins vegar ljóst að helgin verði með þeim stærri í ár, en með öðru sniði þó. „Við erum hætt að fá þessa háskólahópa sem voru að tröllríða öllu hér áður. Uppistaðan að þessu sini er fjölskyldufólk sem er komið hingað til að njóta sín,“ segir hann og bætir við að mikil stemning sé á svæðinu enda einstök upplifun.

Góss spilar frá klukkan átta til hálfellefu í kvöld og er aðgangur ókeypis. Sveitin er á ferðalagi um landið í sumar, spilaði á Vík í gær og heldur á Hvolsvöll á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert