Veiga hálfnuð með hringinn

Veiga átti erfiða lendingu þegar hún kom að landi í …
Veiga átti erfiða lendingu þegar hún kom að landi í fyrradag. Ljósmynd/Aðsend

Kaj­akræðar­inn Veiga Grét­ars­dótt­ir sem rær um þess­ar mund­ir rang­sæl­is í kring­um landið, hefur nú lokið róðri meðfram suðurströndinni og er komin til Hafnar í Hornarfirði. 

Veiga er nú rúmlega hálfnuð með róðurinn og hefur jafnframt lokið erfiðasta kafla leiðarinnar, en hún lagði upp frá Ísaf­irði þriðju­dag­inn 14. maí. 

Veiga hélt af stað austur suðurströndina í byrjun síðustu viku frá Vík í Mýrdal eftir nokkurra daga hvíld í Reykjavík. Hún segir að upphaflega hafi staðið til að koma í land á Höfn á sunnudagskvöld en vegna leiðindaveðurs þurfti hún að fresta því um dag og kom því í land um 16 kílómetra vestur af Höfn. 

„Ég er búin að taka langa daga. Ég lenti í bara einni verstu lendingu sem ég hef nokkurn tímann lent í í fyrradag. Ég fór næstum því fram fyrir mig. Það hvessti skyndilega og ég þurfti að fara á land.“ 

Veiga átti erfiða lendingu þegar hún kom að landi í …
Veiga átti erfiða lendingu þegar hún kom að landi í fyrradag. Ljósmynd/Aðsend

Veiga reri svo síðasta spölinn að Höfn í gærkvöldi og var komin á áfangastað um klukkan 21. 

Veiga hyggst vera á Höfn næstu daga og mun meðal annars halda fyrirlestur á Höfn annað kvöld. 

„Ég þarf núna að þrífa allan búnaðinn minn eftir suðurströndina. Það er allt pakkað í sandi. Tjaldið mitt er bara eins og sandkassi. Ég var með sand í eyrunum. Ég ætla að þrífa bátinn og tjaldið áður en ég held áfram,“ segir Veiga og hlær. 

„Það er góð spá næstu daga og þá verður kýlt á þetta aftur,“ segir Veiga sem stefnir á að leggja aftur af stað fyrir helgi. 

Fylgjast má með nákvæmri staðsetningu Veigu og styrkja Pieta-samtökin hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert