Snjóhulan undir meðallagi

Það hlakka væntanlega fæstir til að þurfa að skafa bílinn …
Það hlakka væntanlega fæstir til að þurfa að skafa bílinn á ný með komandi vetri. Snjóhula síðastliðins vetrar var nokkuð undir meðallagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjóhula síðastliðins vetrar var nokkuð undir meðallagi, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggsíðu sinni, en þar hefur hann tekið saman að beiðni lesenda snjóhulu á tímabilinu frá júlí í fyrra til júníloka í ár.

„Varla að uppgjöri snjóathugana síðasta vetrar sé lokið, en látum samt slag standa og lítum á eins konar heildarútkomu,“ segir Trausti og kveður venju að reikna snjóhulu í prósentum. „Sé alhvítt allan mánuðinn er snjóhulan 100 prósent, sé alautt er hún núll prósent. Sé helmingur daga alauður en helmingur alhvítur er snjóhulan talin 50 prósent, en hún er líka 50 prósent sé jörð hvorki alauð né alhvít heldur flekkótt sem kallað er allan mánuðinn.“

Kort/Trausti Jónsson

Birtir Trausti með færslunni mynd af vikum snjóhulunnar frá meðallagi í einstökum mánuðum, sem sýnir m.a. að snjór var meiri á fjöllum en vant er í október 2018, en nóvember og desember 2018 voru sérlega snjóléttir, bæði í byggð og á fjöllum. „Janúar 2019 var nærri meðallagi, en heldur meiri snjór var í byggð í febrúar en venjulega, mars var nærri meðallagi. Mjög lítill snjór var í apríl og maí — mun minni en að meðallagi. Það eru vetrarfyrningar sem oft halda uppi snjólagi að vorlagi  en þær voru litlar sem engar nú — væntanlega vegna snjóleysisins fyrir áramót.“ 

Þegar heildarsnjóhula vetrarins er skoðuð segir Trausti mega sjá að hún var nokkuð undir meðallagi tímabilsins alls, líkt og hafi verið hvað algengast frá því veturinn 2001 til 2002, er mikil umskipti urðu í snjóalögum og hitafari.

Kort/Trausti Jónsson

„Við þekkjum varla jafnlangt snjórýrt tímabil og þessi 18 síðustu ár,“ segir Trausti og bendir þó á að snjór hafi líka verið mjög lítill á árunum 1959 til 1965 og að mörg snjórýr ár hafi einnig komið fyrir 1949, en ekki var farið að athuga snjólag á fjöllum fyrr en 1935.

mbl.is