„Ég upplifi ákveðið mannorðsmorð“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég upplifi ákveðið mannorðsmorð hér í kvöld og það er ekki fallegt.“ Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir á félagsfundi Pírata í gærkvöldi eftir að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafði meðal annar sagt um Birgittu að hún byggi til „ósætti fremur en sætti og stærði sig af því“. 

Á fundinum voru greidd atkvæði um tilnefningar til trúnaðarráðs Pírata. Birgitta var tilnefnd en hlaut ekki nógu mörg atkvæði eins og mbl.is hefur greint frá. Hinir tveir sem voru tilnefndir voru samþykktir. Þetta voru þau Agnes Erna Ester­ar­dótt­ir og Hrann­ar Jóns­son.

Helgi Hrafn fór ófögrum orðum um Birgittu í ræðu sinni þar sem hann benti á að hún ætti ekki erindi sem fulltrúi flokksins í trúnaðarráði. Hann hvatti aðra til að kjósa hana ekki af fenginni reynslu af samstarfi með henni. „Birgitta býr til ósætti frekar en sætti og er algjörlega ófeimin við það og stærir sig af því. Hún krefst þess að aðrir leiti álits hjá sér en leitar ekki álits annarra. Hún grefur undan samherjum sínum ef hún sér af þeim ógn. Hún hótar þeim ef hún fær ekki það sem hún vill.“ Þetta sagði Helgi Hrafn meðal annars í ræðu sinni. 

Eftir að Helgi Hrafn hafði útlistað ókosti Birgittu steig hún sjálf í pontu. Hún sagðist meðal annars ekki ætla að sitja undir þessu og viðurkenndi að hún væri slæm en ekki svona. Hún þakkaði jafnframt þeim sem höfðu kjark til að tilnefna sig til starfa fyrir flokkinn.   

Skömmu síðar fékk Þórólfur Júlían Dagsson orðið. „Þetta er ógeðslegasti fundur sem ég hef nokkurn tíma verið á,“ sagði Þórólfur og með þeim orðum lýkur broti af upptöku fundarins sem hægt er að sjá hér fyrir neðan. 

Birgitta hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla eftir fundinn. 

Upptaka af fundinum birtist fyrst á Viljanum.  

mbl.is